Al-Ittihad er að ganga frá kaupum á tveimur leikmönnum úr herbúðum AS Roma eftir að Laurent Blanc var ráðinn sem þjálfari liðsins.
Annar þeirra er sóknartengiliðurinn Houssem Aouar, sem lék undir stjórn Blanc hjá Lyon tímabilið 2022-23 áður en hann skipti yfir til Roma. Blanc vildi ólmur fá hann til Al-Ittihad um leið og hann tók við félaginu.
Aouar hefur átt erfitt uppdráttar í Róm og er ítalska félagið reiðubúið til að hleypa honum til Al-Ittihad fyrir um 12 milljónir evra.
Aouar er þó ekki eini leikmaðurinn sem er að skipta á milli, því hinn efnilegi Jan Oliveras fer með honum.
Oliveras er tvítugur bakvörður frá Spáni sem ólst upp í La Masia akademíu Barcelona áður en hann skipti til Roma fyrir fjórum árum síðan.
Hann þykir mikið efni og hefur verið mikilvægur hlekkur í unglingaliði Roma á síðustu árum. Ekki er greint frá því hvort Roma muni halda endurkaupsrétti á leikmanninum.
Al-Ittihad vann sádi-arabísku deildina fyrir tveimur árum og átti mikið vonbrigðatímabil í fyrra þar sem félagið missti af meistaradeildarsæti eftir að hafa verið með þrjá mismunandi þjálfara á deildartímabilinu.
Leikmannahópur félagsins er þó stjörnum prýddur, þar sem Karim Benzema, Fabinho og N'Golo Kanté fara fremstir í flokki, en Luiz Felipe og Jota eru einnig samningsbundnir félaginu ásamt markavélinni þaulreyndu Abderrazak Hamdallah.
Nú fær Blanc það verkefni að samstilla þessar stórstjörnur og fullkomna liðið í kringum þær til að vera samkeppnishæft í toppbaráttu sádi-arabíska boltans.
Athugasemdir