„Þetta er frábært. Þetta er það sem þú ert að berjast fyrir á hverjum degi," sagði Gunnar Vatnhamar, varnarmaður Víkings, eftir að hafa hjálpað liðinu að verða bikarmeistari í dag.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 KA
Víkingar hafa verið handhafar bikarsins í meira en 1400 daga og verða það áfram í eitt ár í viðbót hið minnsta.
„Ég elska þegar allt gengur vel. Þetta var erfiður leikur og þeir spiluðu vel."
Þetta er fyrsti bikar Gunnars með Víkingi en hann kom til félagsins fyrir tímabilið og hefur reynst afar mikilvægur.
„Ég elska að vinna og að vinna með þessu liði er enn betra. Ég elska það. Það er gríðarlegt sigurhugarfar í þessu liði. Við erum með þjálfara sem elskar að vinna og við erum með leikmenn sem elska að vinna. Þess vegna erum við hér með bikarinn."
Matthías Vilhjálmsson lék í miðverði í dag. Gunnar segir það frábært að spila með honum. „Matti getur spilað í vörn, á kanti og sem sóknarmaður. Það skiptir engu máli hvar hann spilar, hann getur spilað alls staðar. Það er frábært að spila með honum."
Veðrið var ekki að leika við menn í dag, en Gunnar vanur svipuðu veðri í Færeyjum. „Þetta er alvöru færeyskt veður. Þess vegna vorum við góðir í dag."
Gunnar ætlar að fagna vel með fjölskyldu sinni og liðsfélögum í kvöld. Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir