Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 19. febrúar 2020 22:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho gagnrýndur - „Sóknarlega er það bara eitthvað"
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Tottenham, var gagnrýndur fyrir leikaðferð sína í leiknum gegn RB Leipzig í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Leipzig var sterkari aðilinn og vann sanngjarnan sigur, þó að eina mark leiksins hafi komið úr vítaspyrnu.

„Kannski treður Mourinho sokk upp í mig, en mér finnst þetta bara gjaldþrotastefna. Áhorfendur vilja ekki horfa þetta, þeir vilja ekki borga sig inn á völlinn til að horfa á þessa týpu af fótbolta lengur," sagði Reynir Leósson í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport.

„Ungir þjálfarar, þessir nýju þjálfarar, eru farnir að vinna hann í taktínni og það sást í kvöld," hélt Reynir áfram, en þjálfari Leipzig er hinn 32 ára gamli Julian Nagelsmann.

Sjá einnig:
Nagelsmann yngstur í sögunni til að vinna í útsláttarleik

Tottenham spilaði ekki með hreinræktaða níu í leiknum, Harry Kane og Son Heung-min eru meiddir.

„Við vorum samt að ræða það að hann er að fá að komast upp með þetta. Á meðan það vantar tvo eða þrjá sterka sóknarleikmenn þá er það samþykkt að hann sé til baka og verjist," sagði Ríkharður Daðason.

„Það sem við ræddum og það sem Freysi tók fram fyrir leikinn er hvernig ætlar hann að spila upp þegar hann hefur enga níu til að spila, engan stóran sterkan leikmann upp á topp. Það sást í gegnum allan leikinn að hvað eftir annað þá vissu þeir ekki hvað þeir ættu að gera við boltann."

Þá tók Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, fyrir myndbrot þar sem leikmenn Tottenham spörkuðu boltanum frá sér í staðinn fyrir að halda boltanum innan liðs.

„Við sjáum augljóslega mynstur í því sem Nagelsmann er að gera varnarlega og sóknarlega. Varnarlega er það varkárt hjá Mourinho, sóknarlega er það bara eitthvað."

„Hann er hræddur við að tapa boltanum á hættulegu svæði. Ég myndi skilja það ef hann væri með leikmenn Leiknis Reykjavíkur, en hann er með Tottenham Hotspur í Meistaradeildinni. Þetta er toppklassa leikmenn, þeir eru ekki að fara að tapa honum. Þá er þetta bara úrræðaleysi og ekki búið að æfa það," sagði Freyr.

Seinni leikur Leipzig og Tottenham fer fram í Þýskalandi 10. mars næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner