Annar þáttur af Besta þættinum er kominn út þar sem leikmenn og stuðningsmenn liða í Bestu deildinni eru paraðir saman og keppa sín á milli.
Selfoss lagði KR að velli í fyrsta þætti þar sem Guðmundur Þórarinsson og Sif Atladóttir unnu góðan sigur fyrir Selfyssinga. Í öðrum þætti mættust Leiknir R. og ÍBV í hörkuviðureign.
Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, keppti fyrir hönd Leiknis ásamt Bjarka Aðalsteinssyni fyrirliða og áttu þeir eftir að fara á kostum. Hannes Þór kom flestum á óvart og gjörsamlega raðaði inn stigum í skotkeppninni þar sem hann setti boltann nokkrum sinnum í samskeytin og þaggaði væntanlega niður í þeim sem hafa gagnrýnt hann fyrir að vera ekki nógu góður í löppunum.
Þeir félagarnir rúlluðu yfir Vestmanneyinga þar sem Guðjón Pétur Lýðsson og goðsögnin Margrét Lára Viðarsdóttir áttu aldrei möguleika.
Þess má geta að þessi lið mætast einmitt í fallbaráttu Bestu deildarinnar næstkomandi sunnudag, 24. júlí.
2. þátt má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Sjá einnig:
Besti þátturinn - KR keppir gegn Selfossi í fyrsta þætti