Guðlaugur Victor Pálsson átti stórbrotna frammistöðu í liði Íslands í grátlegu 1-0 tapi gegn Portúgal en hann hefur stimplað sig sem einn af lykilmönnum landsliðsins síðustu ár. Þetta verkefni sýndi þann ótrúlega karakter sem hann hefur að geyma.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Portúgal
Cristiano Ronaldo skoraði eina mark leiksins undir lokin en markið var upphaflega dæmt af en með aðstoð VAR þá fékk það að standa þar sem menn voru ekki nógu fljótir að stíga upp úr vörninni.
Guðlaugur kom inn á smáatriði sem klikkuðu í dag en þar nefnir hann færið og varnarleikinn í markinu.
„Mjög mikið svekk vegna þess að við áttum meira skilið en í lok dagsins er þetta smáatriði sem kemur frá okkur. Á svona leveli eru þessi smáatriði sem kosta á móti góðum liðum.“
„Færið mitt og við erum þreyttir í endann og tíu menn að elta en við þurfum að stíga upp sem lið áður en sendingin kemur. Við spilum hann réttstæðan eða það held ég og þetta er bara smáatriði,“ sagði Guðlaugur Victor við fjölmiðla í kvöld.
Willum Þór Willumsson fékk að líta sitt annað gula spjald undir lokin fyrir klaufalega tæklingu en Guðlaugur segir hann geta lært af þessu. Hann hrósar þá framlagi Willums í glugganum.
„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur en hann er á gulu og fer í þessa tæklingu. Það er aldrei sniðugt, en Willum er búinn að vera frábær í þessum glugga og ég er mjög stoltur af honum og var geggjaður í dag. Þetta eru smáatriði, 'split-second' dæmi. Ég hef fengið fullt af rauðum spjöldum á mínum ferli og svona bara gerist og ekkert við hann að sakast.“
„Við þurfum að horfa á það jákvæða og taka það með okkur inn í næsta glugga. Laga þessi smáatriði og þá vinnum við fótboltaleiki,“ sagði hann ennfremur.
Spilaði fyrir pabba sinn
Faðir Guðlaugs féll frá skömmu fyrir landsleikina og spilaði Ísland með sorgarbönd gegn Slóvakíu til að heiðra minningu hans en hann ræddi hvernig síðustu dagar hafa verið.
„Rosalega sveiflukennt. Ég er smá feginn að þetta sé búið núna og get núna einbeitt mér að mér og minni fjölskyldu. Erfiðir dagar framundan.“
„Ég viðurkenni það að ég hugsaði um hvort ég hefði hausinn í það en síðan ákvað ég að gera það og sé ekki eftir því. Pabbi minn hefði viljað að ég myndi spila og ég gerði það fyrir hann.“
„Ég er þakklátur þjálfaranum, starfsfólkinu og liðsfélögunum og þjóðinni sem er búin að vera senda á mig. Takk kærlega frá mínum dýpstu hjartarótum.“
„Ég var mjög fókuseraður og þegar maður er inni á fótboltavellinum er maður kominn á 'happy place' og nær að kúpla sig frá og þarf að einbeita sér að þessu. Þetta eru 90 mínútur sem ég þarf að einbeita mér að,“ sagði Guðlaugur Victor en gat hann nýtt þetta sem styrk inn á vellinum?
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá veit ég það ekki. Þetta gefur manni ákveðin styrk og maður nálgast leikinn öðruvísi þegar maður er búinn að lenda í svona áföllum. Fótbolti er ekki 'do or die' og maður kúplar sig úr þessu stressi, fer inn á völlinn og gerir sitt besta. Fótbolti er ekki það mikilvægasta og maður áttar sig á því þegar svona hlutir gerast í lífi manns, en ég fór inn í þetta með það í huga að vera til staðar á vellinum fyrir liðið mitt og vilja spila vel. Ég er þakklátur að hafa þennan stuðning frá öllum í kring því annars hefði ég ekki getað það.“
Guðlaugur þakkaði þá þjóðinni fyrir stuðninginn sem hann segir ómetanlegan.
„Alveg klárlega. Mér fannst stemningin á móti Slóvakíu frábær og frábær í dag. Fullur völlur og við gáfum þeim eitthvað til að horfa á og þau gáfu okkur hellings styrk og stuðning, þetta er það sem við þurfum þessi litla þjóð sem við erum — allir að styðja hvorn annan,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
























