Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   fim 20. júní 2024 21:15
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Fyrsta tap Fjölnis kom í Breiðholti
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveimur seinni leikjum kvöldsins er lokið í Lengjudeild karla þar sem ÍR vann óvæntan sigur á toppbaráttuliði Fjölnis.

Lestu um leikinn: ÍR 3 -  1 Fjölnir

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur þar sem bæði lið fengu góð færi en tókst ekki að skora og var staðan markalaus í leikhlé. ÍR-ingar fengu bestu færin en það voru Fjölnismenn sem tóku forystuna í síðari hálfleik.

ÍR vildi fá vítaspyrnu á 49. mínútu en Fjölnismenn skoruðu skömmu síðar eftir hornspyrnu, þegar Bjarni Þór Hafstein fylgdi eftir með góðu marki eftir markvörslu Vilhelms Þráins Sigurjónssonar.

Breiðhyltingar voru snöggir að svara fyrir sig. Kristján Atli Marteinsson skoraði frábært mark með glæsilegu skoti utan vítateigs til að jafna metin og var áfram mikið líf í leiknum.

Það róaðist aðeins niður þegar leið á seinni hálfleikinn en heimamenn tóku forystuna á 83. mínútu, þegar Bragi Karl Bjarkason skoraði eftir að boltinn datt fyrir hann í vítateignum í góðri sókn.

Fjölnismenn fengu dauðafæri í uppbótartímanum en tókst ekki að jafna leikinn á ný, þess í stað innsiglaði Bragi Karl sigurinn með marki á 92. mínútu. Þar fylgdi hann eigin stangarskoti eftir með marki og urðu lokatölur 3-1 eftir frábæran fótboltaleik.

Fjölnir er áfram í öðru sæti deildarinnar eftir fyrsta tap sitt í sumar, með 17 stig eftir 8 umferðir. ÍR var að vinna sinn annan leik á deildartímabilinu og er með 9 stig.

ÍR 3 - 1 Fjölnir
0-1 Bjarni Þór Hafstein ('50)
1-1 Kristján Atli Marteinsson ('54)
2-1 Bragi Karl Bjarkason ('83)
3-1 Bragi Karl Bjarkason ('92)

Á sama tíma áttust Keflavík og Þróttur R. við í Reykjanesbæ og var staðan markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik þar.

Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 1 Þróttur R.

Heimamenn tóku forystuna í upphafi síðari hálfleiks þegar Ari Steinn Guðmundsson skoraði með laglegu marki eftir góða sendingu frá Edon Osmani á kantinum.

Leikurinn lifnaði við eftir opnunarmarkið og fengu bæði lið færi áður en Þrótturum tókst að jafna metin á 85. mínútu. Kostiantyn Iaroshenko skoraði þar stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu, þar sem hann lyfti boltanum yfir varnarvegginn og í stöngina og inn.

Keflvíkingar reyndu að sækja sigurmark á lokamínútunum en Þróttarar vörðust vel og fengu gott færi undir lok uppbótartímans en tókst ekki að nýta það. Lokatölur 1-1.

Keflavík er áfram um miðja deild, með 10 stig eftir 8 umferðir. Þróttur er í fallbaráttu með 6 stig.

Keflavík 1 - 1 Þróttur R.
1-0 Ari Steinn Guðmundsson ('55)
1-1 Kostiantyn Iaroshenko ('85)
Athugasemdir
banner