Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 21. janúar 2025 16:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vildi ekki ljúka ferlinum á 7-0 tapi - Segir frá gleðitíðindum fyrir HK-inga
Lengjudeildin
Leifur Andri  er langleikjahæsti leikmaður í sögu HK með 417 KSÍ leiki að baki.
Leifur Andri er langleikjahæsti leikmaður í sögu HK með 417 KSÍ leiki að baki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næsta tímabil verður hans 17. á ferlinum.
Næsta tímabil verður hans 17. á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Arnars endursamdi líka við HK.
Atli Arnars endursamdi líka við HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnþór Ari verður áfram.
Arnþór Ari verður áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hemmi Hreiðars tók við HK eftir að síðasta tímabili lauk.
Hemmi Hreiðars tók við HK eftir að síðasta tímabili lauk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var frekar þungt að hugsa um þessa síðustu umferð á síðasta tímabili sem við töpum 7-0 og föllum. Það var ekki efst í huga að enda ferilinn þannig. Það hafði einhver áhrif á það að ég vildi halda áfram, Hemmi heyrði svo líka í mér og stjórnin tekið stöðuna á mér reglulega síðan í byrjun desember," segir Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, sem skrifaði undir nýjan samning við félagið í síðustu viku.

„Ég finn að það er orka í félaginu, þvílík orka í Hemma líka og hugurinn í mönnum er þannig að það á að vinna þessa deild. Það var svolítið erfitt að ætla að sleppa því að taka þátt í því, því ef maður hættir þessu þá er erfitt að ætla sér að koma aftur á þessum aldri."

Leifur er 35 ára miðvörður sem leikið hefur allan sinn feril með liðinu. Hann var búinn að vera með lausan samning frá því að síðasta tímabil kláraðist og ákveðin óvissa hvort hann myndi halda áfram í fótbolta.

„Skrokkurinn er fínn, ég komst nokkuð þægilega frá síðasta tímabili, skrokkurinn var góður og hélt vel. Maður heldur áfram á meðan skrokkurinn leyfir og maður tekur þennan slag með liðinu á meðan maður hefur ennþá eitthvað fram að færa inn á vellinum."

Hjálpaði mikið til að markmiðið sé að fara upp
Segjum sem svo að HK væri ekkert endilega að horfa í það að fara aftur upp í Bestu deildina, hefðir þú þá tekið slaginn áfram?

„Það er erfitt að segja, en ég hugsa að það hefði ekki hjálpað mér í minni ákvörðun ef hugsunin hefði bara verið að taka þátt í mótinu. Orkan er þannig að það var ekkert farið í neitt volæði og hausinn niður í jörðina eftir tímabilið, hugurinn er bara að fara beint aftur upp og gera allt sem hægt er til að gera það. Það spilaði stóra rullu í þessu."

Einn af betri miðjumönnum í sögu HK
Annar reynslubolti, Atli Arnarson, verður líka áfram hjá HK en hann hafði verið orðaður við áframhaldandi veru í Bestu deildinni.

„Það var líka partur af þessu, þessi deild er ekki auðveld og það þarf að hafa reynslu. Við erum með fullt af ungum og efnilegum leikmönnum sem eru að fara taka risastór skref í sumar og manni finnst þeir vera að bæta sig gríðarlega milli ára. Það þarf að vera ákveðin blanda af leikmönnum og það er mjög sterkt að halda í þessa reynslu sem við erum komnir með núna. Þessir yngri strákar fá traustið til að spreyta sig og maður hefur trú á verkefninu sem er í gangi."

„Það er geggjað að halda Atla sem er frábær þegar hann nær að klukka einhverja leiki. Þá er hann bara einn af betri miðjumönnum sem hafa verið í HK."


Arnþór Ari verður áfram í HK
Annar reynslumikill leikmaður, Arnþór Ari Atlason, hefur sömuleiðis verið orðaður við Bestu deildina. Hefurðu tekið samtalið við hann?

„Hann verður áfram í HK, ég get bara sagt þér það núna. Það er ákveðinn kjarni af leikmönnum hér og hann er stór partur af honum. Við þurfum að halda þessum kjarna til þess að hjálpa yngri leikmönnunum að taka eins stór skref áfram og hægt er. Það er frábært að Arnþór hafi ákveðið að taka slaginn áfram með okkur. Þetta lítur vel út."

Hægt að leysa það á marga vegu
Eftir að Atli Þór Jónasson og Eiður Gauti Sæbjörnsson héldu áfram er utan frá nokkuð augljóslega stórt gat í fremstu víglínu. Sérðu það eins?

„Ég held það sé nokkuð augljóst að þegar þú missir tvo leikmenn sem búa yfir mjög miklum gæðum, styrk og hæð að það vantar framherja inn í hópinn. En ég held að það sé hægt að leysa það á marga vegu. Ef við fáum einhvern góðan framherja þá væri það frábært. Ég held að það sé það sem menn eru að líta í núna. Svo erum við með fullt af efnilegum ungum strákum sem gætu fengið tækifærið og ef það gerist þá vinnum við með það."

Spenntur að taka slaginn með Hemma Hreiðars
Þú nefndir Hemma í byrjun, hvernig finnst þér hann hafa komið inn í hlutina?

„Hrikalega vel. Ég mætti aftur inn í þetta fyrir viku síðan, en hafði átt einhver samtöl við hann. Hann kemur með þvílíka orku, er mjög fær þjálfari og er með mjög skýra sýn á því hvernig hann vill spila, hvað hann vill gera og hvert félagið stefnir. Hann er að draga þá orku í menn. Ég er mjög spenntur að taka slaginn með honum," segir Leifur Andri.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner