Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 21. febrúar 2023 16:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Vanda útskýrir ýmislegt - „Upphitun lokið og núna er leikurinn að byrja"
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá leik á Laugardalsvelli.
Frá leik á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlalandsliðið fagnar marki á síðasta ári.
Karlalandsliðið fagnar marki á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalandsliðið fagnar marki.
Kvennalandsliðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ár er liðið frá því Vanda var kjörin formaður.
Ár er liðið frá því Vanda var kjörin formaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ár er liðið frá því Vanda var kjörin formaður.
Ár er liðið frá því Vanda var kjörin formaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér finnst þetta mjög spennandi þing sem er framundan," segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við Fótbolta.net. Einhverjir hafa sagt ársþingið hjá KSÍ vera óspennandi í ár þar sem engar formannskosningar eru á dagskrá og sjálfkjörið er í stjórn.

„Ég átta mig á þessu með kosningarnar, en það er fullt af mikilvægum tillögum sem skipta miklu máli fyrir fótboltann. Svo finnst mér að það megi ekki gleyma félagslega þættinum, að hittast. Alltaf þegar fótboltahreyfingin hittist er það áhugavert og ég hlakka mikið til."

Ársþingið fer að þessu sinni fram á Ísafirði en Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, hefur gagnrýnt að ársþingið sé haldið út á landi. Það fylgi því mikill kostnaður fyrir félög á höfuðborgarsvæðinu.

Er mikilvægt að halda þingið út á landi einstaka sinnum?

„Mér finnst það, en það er svo sem ekkert nýtt heldur," segir Vanda. „Þingið hefur verið víða um land og það eru margir sem hafa sagt mér að þetta séu oft skemmtilegustu þingin, mesta samveran og mesta stuðið. Oft er vísað í þingið á Ólafsvík og í Vestmannaeyjum. Knattspyrnuhreyfingin er út um allt land og þá finnst mér eðlilegt að við séum með þing út um allt land."

Úr tvö ár í fjögur
Á meðal þess sem félögin sem munu kjósa um á þinginu er tillaga frá stjórn KSÍ að lengja kjörtímabil formanns úr tveimur árum í fjögur. Starfshópur sem var stofnaður um stjórnskipulag KSÍ leggur þetta til en Vanda, sem er sitjandi formaður KSÍ, var sjálf í starfshópnum.

„Þetta kemur upprunalega úr starfshópi um stjórnskipulag KSÍ sem var skipaður. Þessi tillaga kemur frá þessum starfshópi. Ég var í þeim starfshópi svo það sé sagt," segir Vanda en auk hennar eru Borghildur Sigurðardóttir, Guðrún Inga Sívertsen og Orri Hlöðversson í starfshópnum - að því er kemur fram á vefsíðu KSÍ.

„Þetta kemur upprunalega úr þessum starfshópi," segir Vanda en hver ástæðan fyrir þessari tillögu?

„Það tekur tíma að breyta málum og koma sér inn í hlutina. Það eru langflestir með fjögur ár út af því. Stjórnmálin eru með fjögur ár, ÍSÍ er með fjögur ár og önnur sérsambönd sem ég hef kynnt mér eru með fjögur ár. Flestallir innan UEFA eru með fjögur ár. Razvan Burleanu hjá rúmenska sambandinu sagði við mig að 50 af 55 hjá UEFA væru með fjögur ár en ég þori ekki að fullyrða um það."

„Það er ástæða fyrir því að þetta er almennt fjögur ár. Það tengist því að það tekur tíma að koma sér inn í hlutina og það tekur tíma að gera breytingar. Þetta er eitthvað sem við teljum að sé best fyrir fótboltann og ég tel það líka, það sé skynsamlegt að gera þetta svona. Þetta hefur ekkert með mig persónulega að gera. Við teljum að þetta sé best, að feta í fótspor annarra."

Þess skal geta að ef þessi tillaga verður samþykkt þá getur formaður áfram aðeins setið samfleytt í mest tólf ár.

Vilja finna leið til bæta upplifun
Það kemur fram í greinargerð með fjárhagsáætlun árið 2023 segir að gert sé ráð fyrir 55-80% sætanýtingu (miðasölu) á heimaleiki A landsliðs karla. Fram kom einnig í greinargerðinni að stefnt sé á að kynna ýmsar nýjungar sem ætlað er að bæta upplifun áhorfenda á Laugardalsvelli. Vanda var spurð út í það en hún segir að þessi mál séu í skoðun.

„Aðstæður á vellinum eru ekki að hjálpa okkur en við sáum til dæmis í leiknum á móti Hollandi hjá A-kvenna að þar var brjáluð stemning, fánar og lúðrasveit. Okkur langar að finna leið til þess að bæta upplifunina og búa til meiri stemningu," segir Vanda en einnig á að kynna nýtt miðasölumódel. Markmiðið með því er að fjölga áhorfendum á leiki og að auka tekjur til lengri tíma.

„Við ætlum að breyta því þannig að verðið muni rokka meira en hefur verið. Eftir andstæðingum, sætum og fleira. Það getur verið dýrara að fara á leiki gegn Portúgal en öðrum liðum. Þetta er eitthvað sem er þekkt. Miðaverðið er breytilegra en áður - eftir andstæðingum."

Álagið á starfsfólkinu var á eldrauðu
Fram kom í fjárhagsáætlun frá árinu 2022 að skrifstofu- og rekstrarkostnaður KSÍ ætti að vera tæplega 305 milljónir en endaði á því að vera tæplega 352 milljónir. Það var að hluta til vegna lögbundinnar launahækkunar og uppbótar fyrir EM kvenna síðasta sumar.

Áætlað er kostnaður í þessum lið verði tæplega 398 milljónir fyrir næsta ár. „Þetta er 100 milljón króna hækkun í áætlunum á milli ára í þessum lið," sagði Þórir í útvarpsþættinum en honum fannst þetta mjög athyglisvert.

Vanda var spurð út í þessa miklu hækkun í áætlunum á milli ára. Er þá stefnt á að bæta við starfsfólki hjá sambandinu?

„Já, og við erum búin að því," segir Vanda við þeirri spurningu. „Mér finnst samt mikilvægt að tala um að þetta er ekki bara launakostnaður starfsfólks. Þessi rekstrarliður er líka fyrir rekstur bifreiða, ársþingið, fundarkostnaður, tölvukostnaður... það er ýmislegt annað þarna inni en bara laun."

„En partur af þessu - svo sannarlega - er að við erum að bæta við stöðugildum. Við verðum að gera það, með það að markmiði að auka þjónustuna við félögin og bæta íslenskan fótbolta. Það var gert áhættumat og álagið á starfsfólkinu var á eldrauðu. Við þurftum að fjölga, það er engin spurning, og við höfum gert það. Það er stór partur af þessu."

„Lögbundin launahækkun frá 1. nóvember er líka inn í þessu. Það er líka hitt og þetta inn í þessu, en við erum ekkert að fara í felur með að við erum að bæta í. Við höfum horft í kringum okkur og erum að skoða hvernig önnur sérsambönd eru að gera hlutina - mér finnst það skipta máli. Við erum eftir á þar, og erum núna að bæta í. Við ætlum að auka þjónustuna við félögin og styrkja íslenskan fótbolta. Fólk hefur áhyggjur af því að við erum að detta aftur úr. Það eru allir á fullu í þessari framþróun og við megum ekki vera eftirbátar. Þetta er bara liður í því."

„Ég hef oft verið spurð að því hvernig í ósköpunum við förum að þessu á Íslandi. Það er ekki þannig að allt sé ömurlegt hérna, félögin og landsliðinu eru að standa sig frábærlega, og allt það. En við sjáum að það er mikil þróun og við þurfum að hanga með í þeirri þróun. Við munum kynna það á ársþinginu og á næstum mánuðum hvað við ætlum að gera. Við ætlum að gera gott starf enn betra," segir Vanda enn fremur en laun hennar voru mikið í fjölmiðlum um liðna helgi. Fannst henni það óþægilegt?

„Nei, þetta truflar mig ekki neitt. Þetta hefur verið svona áður. Ég hef lesið þetta um fyrrum formenn. Þetta er partur af þessu."

Vanda fær tæpar 20 milljónir í laun fyrir starf sitt sem formaður KSÍ á síðasta ári en þetta kemur fram í ársreikningi KSÍ.

Upphitun lokið og leikurinn að byrja
Vanda hefur verið formaður KSÍ síðan 2021 en hún er fyrsta konan til sem er formaður sambandsins. Hún var fyrst formaður fyrir bráðabirgðastjórn en var svo kjörin til tveggja ára á ársþinginu fyrir ári síðan. Kjörtímabili hennar lýkur því eftir eitt ár. Hún er ánægð með fyrsta árið en segist vera rétt að byrja ásamt stjórninni.

„Ég er mjög sátt. Ég lít mjög björtum augum á þetta fótboltaár. Þetta er búið að vera undirbúningur, við höfum verið að koma okkur inn í málin. Við erum rosalega ný stjórnin. Til að nota fótboltamál þá er upphitun lokið og núna er leikurinn að byrja. Við erum öll mjög spennt fyrir þessu ári og það er mjög margt spennandi framundan," sagði Vanda að lokum en það er vert að minna á ársþingið um næstu helgi.
Útvarpsþátturinn - Rúnar Páll, Kórdrengir kveðja og ársþingið
Athugasemdir
banner