Newcastle blandar sér í baráttu við Man Utd og Chelsea um Delap - Man City veitir Liverpool samkeppni um Kerkez
   mið 21. maí 2025 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Forgangsmál að semja við De Jong: „Þénum 950 milljónir"
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Joan Laporta forseti Barcelona gaf ítarleg svör um nánustu framtíð stórveldisins í viðtali við TV3 á dögunum.

Barcelona hefur verið á miklu skriði undir stjórn Hansi Flick og sigraði bæði spænsku deildina og bikarinn á yfirstandandi tímabili, eftir að hafa dottið úr leik í undanúrslitum Meistaradeildarinnar eftir ótrúleg einvígi við Inter.

Þrátt fyrir frábæran árangur á tímabilinu staðfestir Laporta að Börsungar ætli að breyta til í hópnum hjá sér til að fullkomna liðið.

„Það verða breytingar á hópnum í sumar. Okkar helstu keppinautar munu styrkja sig eftir að hafa séð að við erum besta fótboltaliðið þessa stundina og við þurfum að gera það líka," sagði Laporta sem fór svo að tala um einstaka leikmenn.

„Það er forgangsmál að semja við Frenkie de Jong því við viljum ekki hafa leikmenn hérna sem eiga bara eitt ár eftir af samningi. Hann veit hvar við stöndum og er að spila frábærlega. Hann hjálpar okkur að stjórna leikjum, við elskum þessa hollensku leikmenn.

„Við erum komnir langt í viðræðum við Inigo (Martínez) og Raphinha og svo buðum við (Wojciech) Szczesny nýjan samning. Hann hefur verið frábær fyrir okkur, hann kom inn með mikilvæga reynslu og við vonum að hann samþykki tilboðið frá okkur. Lamine Yamal er búinn að samþykkja nýjan samning en má ekki skrifa undir fyrr en eftir 18. afmælisdaginn."


Laporta var þá spurður út í hvaða leikmenn Börsungar vilja kaupa inn í sumar og hversu mikið þeir geta keypt án þess að brjóta fjármálareglur spænsku deildarinnar aftur.

„Það er ekkert ómögulegt en við erum ekki að skoða Erling Haaland núna. Hann er nýbúinn að skrifa undir samning," sagði Laporta þegar hann var spurður út í Haaland og Nico Williams.

„Við skoðuðum að kaupa Nico síðasta sumar á svipuðum tíma sem við fengum Dani Olmo, en eins og staðan er í dag erum við með önnur skotmörk.

„Barca mun þéna um 950 milljónir evra á fjárhagsárinu. Það er næstum einn milljarður. Við erum fullir sjálfstrausts um að geta virt allar fjárhagsreglur."

Athugasemdir