Newcastle blandar sér í baráttu við Man Utd og Chelsea um Delap - Man City veitir Liverpool samkeppni um Kerkez
   mið 21. maí 2025 11:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Valur í vandræðum - „Ef þetta væri bátur, þá væri hann sokkinn"
Kvenaboltinn
Valur er að ganga í gegnum mikla erfiðleika.
Valur er að ganga í gegnum mikla erfiðleika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Guðmundsson og Kristján Guðmundsson, þjálfarar Vals.
Matthías Guðmundsson og Kristján Guðmundsson, þjálfarar Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Pétursson hafði þjálfað Val lengi áður en hann yfirgaf félagið eftir síðasta sumar.
Pétur Pétursson hafði þjálfað Val lengi áður en hann yfirgaf félagið eftir síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var ekki endursamið við Katie Cousins.
Það var ekki endursamið við Katie Cousins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar og hefur hún skorað meira en allt Valsliðið til samans.
Berglind Björg er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar og hefur hún skorað meira en allt Valsliðið til samans.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er sem stendur í neðri hluta Bestu deildarinnar.
Valur er sem stendur í neðri hluta Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er svolítið skrítið að horfa á töfluna í Bestu deild kvenna þessa stundina. Valur, sem hefur unnið ótal magn titla á síðastliðnum árum, situr í sjötta sæti með sjö stig eftir sex leiki. Það sem meira er að þá hafa þær skorað næstfæst mörk í deildinni, aðeins sex talsins, og eru með -2 í markatölu.

Valur mætti Breiðablik í síðustu viku, en leikir þessara liða hafa alltaf verið þeir stærstu síðustu tímabil. Í þetta skiptið vann Breiðablik 4-0 sigur og átti Valur aldrei möguleika.

„Það helst kannski bara í hendur við spilamennsku liðsins og hugmyndaleysið, algjört ráðaleysi eiginlega frá aftasta manni," sagði Magnús Haukur Harðarson þegar rætt var um Val í Uppbótartímanum, nýju hlaðvarpi um kvennaboltann hér á Fótbolta.net.

Maggi segir að það komi á óvart hvernig Valsliðið er þar sem það er vel mannað og þá sérstaklega í öftustu línu.

„Það er rosalega skrítið að liðið sé eins og það er, orðið hálf leiðtogalaust líka með alla þessa reynslu. Maður heyrir ekkert í þeim inn á vellinum og maður heyrir ekkert í þjálfurunum. Það er ekki bara þessi leikur (á móti Breiðabliki). Þær tapa líka sannfærandi á móti Stjörnunni, liði sem hafði verið í miklu basli."

„Það voru kynntar einhverjar nýjar stefnur fyrir tímabilið. Upphafið á endinum var að láta Pétur Pétursson fara með allt hans teymi. Leikmenn fara á skrítnum forsendum og svo er komin stefna á að vera með unga leikmenn. Það er boðið í leikmenn hingað og þangað, en leikmennirnir sem koma inn á í Breiðabliksleiknum eru fæddar 2009 og eru ekki tilbúnar að spila í efstu deild, hvað þá fyrir Val. Þeim er enginn greiði gerður," sagði Magnús.

Fyrir tímabilið voru gerðar breytingar hjá Val. Pétur Pétursson, sem hafði verið gríðarlega sigursæll á Hlíðarenda, yfirgaf félagið og inn í hans stað komu Kristján Guðmundsson og Matthías Guðmundsson. Út fóru líka stórkostlegir leikmenn, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Katie Cousins, sem hafa verið að blómstra í efstu tveimur liðum deildarinnar.

Adda Baldursdóttir, sem er fyrrum leikmaður Vals og fyrrum þjálfari hjá félaginu, var einnig í þættinum. Hún var hluti af þjálfarateyminu í fyrra þegar þær urðu bikarmeistarar og einum leik frá Íslandsmeistaratitlinum líka.

Hvernig er fyrir þig að horfa á þetta?

„Mér finnst það mjög erfitt," sagði Adda. „Ég tek undir með Magga. Þetta er að mínu mati best mannaða varnarlína deildarinnar þegar Anna Rakel spilar vinstra megin. Það er erfitt að horfa á leikmenn koðna í Valstreyjunni, í staðinn fyrir að stækka. Það eru þarna leiðtogar sem hafa farið í gegnum allt," sagði Adda.

Bara hjá meistaraflokki kvenna í fótbolta?
Valur hefur síðustu árin alltaf barist um Íslandsmeistaratitla og verið með gríðarlega sterkt lið - alltaf barist um stærstu bitana á markaðnum líka. Í vetur virtist stefnan hins vegar breytast eitthvað; félagið reyndi að fá marga unga og efnilega leikmenn, og sótti nokkrar þeirra. Svo kom Jordyn Rhodes frá Tindastóli stuttu fyrir mót ásamt Elínu Mettu Jensen, tveir reynslumiklir leikmenn. Þær lentu á eftir Breiðabliki og Þrótti í vetur.

„Það er ekki samið við Berglindu Björg og Katie Cousins. Samtalið var víst ekki virkt á milli þessara leikmanna og félagsins, miðað við það sem maður heyrir. Samt er samið við Elínu Mettu, með fullri virðingu fyrir hennar ferli og frábært að hún sé að komast aftur af stað, og svo er Jordyn Rhodes tekin inn korter fyrir mót. Þarna fer allt sem er búið að vera að tala um eða leggja upp með á einu bretti," sagði Maggi.

„Það er þessi nýja stefna. Er þetta bara ný stefna hjá meistaraflokki kvenna í fótbolta hjá Val? Við vorum Evrópumeistarar í handboltanum um daginn. Þessi stefna er ekki karlamegin, ekki í handboltanum og ekki í körfuboltanum. Er þessi stefna bara sett inn í kvennaliðið í fótboltanum?" spurði Adda en fyrir tímabilið var KH, venslafélag Vals, lagt niður í kvennaflokki.

„Ef það er verið að spila á ungum og efnilegum leikmönnum, þá þurfum við tröppugang. KH hefði getað virkað ef það hefði verið haldið vel utan um það," sagði Adda.

„Það er ekki sama plan í karla- og kvennaboltanum hjá Val," sagði Maggi.

Veit að það býr meira í þessu liði
Það er þó hægt að vera sammála um að það búi meira í þessum leikmannahópi en þær hafa verið að sýna núna og nýju þjálfararnir ekki verið að ná því mesta út úr hópnum hingað til.

„Ég skynja áhugaleysi hjá þessari stjórn. Valur fellur ekki í ár. Það þarf meira til í kvennabolta að þjálfarar eru látnir taka pokann sinn. En ef menn væru með bein í nefinu á Hlíðarenda - ég óska þess ekki að þeir væru látnir fara - en það hljóta að hafa átt sér stað samtöl sem eru mjög alvarleg," sagði Magnús.

„Ef allt hefði verið eðlilegt, þá hefði verið fundur hálftíma eftir leik gegn Breiðabliki."

„Valur er enn með lið til að berjast um titla finnst mér. Ég hef bæði spilað með og þjálfað þessi leikmenn og ég veit að þeim er ekki sama. Þær vita hvað það þýðir að spila í Valstreyjunni. Ég veit að það býr meira í þessu liði en þær eru að sýna en það er bara spurning hvernig þær ætla að rífa sig úr þessari holu," sagði Adda.

„Aðallega eru breytingarnar á hliðarlínunni og upp stigann. Það átti að vera með stefnu en það er algjört stefnuleysi. Ef þetta væri bátur, þá væri hann sokkinn," sagði Magnús.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum hér fyrir neðan og á hlaðvarpsveitum.
Uppbótartíminn - Valur að ganga í gegnum dimman dal
Athugasemdir
banner
banner