Enska úrvalsdeildarfélagið Brighton, sem á enn möguleika á að ná Sambandsdeildarsæti fyrir næstu leiktíð, er búið að semja við miðvörðinn Olivier Boscagli.
Sky Sports er meðal fjölmiðla sem greina frá þessu en Boscagli kemur í enska boltann á frjálsri sölu frá Hollandsmeisturum PSV Eindhoven.
Boscagli er 27 ára gamall og getur spilað sem varnartengiliður og vinstri bakvörður þó hann sé miðvörður að upplagi. Hann gaf 6 stoðsendingar og skoraði 1 mark í 43 leikjum með PSV á tímabilinu eftir að hafa verið með svipaðar tölur tímabilið 2023-24.
Brighton hefur lengi reynt að kaupa Boscagli en PSV hafnaði 10 milljón evra tilboði frá félaginu í fyrrasumar. Seinna tilboðið hljóðaði upp á 10 milljónir evra en stjórnendur PSV voru ekki í vafa - þeir vildu halda Boscagli þrátt fyrir vitneskjuna um að hann myndi fara frítt ári síðar.
Boscagli er franskur og var mikilvægur hlekkur upp ógnarsterk yngri landsliðin en tók aldrei skrefið upp í A-liðið. Hann ólst upp hjá Nice og skipti til PSV fyrir sex árum síðan.
Lewis Dunk fyrirliði, Jan Paul van Hecke, Adam Webster, Igor og Eiran Cashin eru miðverðir Brighton sem stendur.
Athugasemdir