„Þetta er bara spennandi, ég er mjög spennt og það er gaman að vera komin núna með hópnum og vera byrja æfa. Ég er bara spennt fyrir þessu eins og allar í hópnum," sagði Guðrún Arnardóttir fyrir landsliðsæfingu í dag.
Átján dagar eru í fyrsta leik Íslands á EM, gegn Belgíu þann 10. júlí.
Átján dagar eru í fyrsta leik Íslands á EM, gegn Belgíu þann 10. júlí.
„Já, auðvitað. Maður er með sjálfstraust, það gengur vel og það hjálpar manni alltaf. Þetta er kannski svolítið öðruvísi hérna en maður reynir að færa það góða yfir og reynir að standa sig vel hér líka," sagði Guðrún sem er mikilvægur hlekkur í liði Rosengård sem varð sænskur meistari í fyrra og situr í toppsæti sænsku deildarinnar sem stendur.
Guðrún fékk tækifæri í byrjunarliði íslenska liðsins síðasta haust.
„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt fyrir mig. Ég kom aftur inn í landsliðið í byrjun síðasta árs og fékk svo tækifærið í lok árs. Maður er náttúrulega í þessu af því maður vill spila og það er alltaf markmiðið. En það er ekki sjálfgefið, það er mikil samkeppni um allar staðar og gríðarlega mikil samkeppni í minni stöðu. Ég reyni að njóta þegar ég fæ tækifærið og geri mitt besta."
Hvernig er að spila við hliðina á Glódísi Perlu?
„Það er mjög auðvelt. Hún er frábær leikmaður og mikill leiðtogi líka. Hún lyftir svolítið upp leikmönnunum í kringum. Það er algjört æði."
Reynir að lifa í núinu
Guðrún gekk í raðir Rosengård síðasta sumar. Horfir hún eitthvað lengra en það?
„Eins og staðan er núna er ég bara í Rosengård. Ég er samningsbundin fram á næsta sumar. Ég er bara að reyna lifa í núinu og ekki að pæla of mikið í því," sagði Guðrún.
Athugasemdir