Það hefur mikil reynsla farið úr íslenska landsliðinu á undanförnum misserum og þá vantar leikmenn í núverandi verkefni vegna meiðsla. Sveindís Jane Jónsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir voru til dæmis frá vegna meiðsla í kvöld.
En þá stíga bara aðrir leikmenn upp. Í kvöld léku þrír leikmenn sinn fyrsta keppnisleik með landsliðinu en það eru Diljá Ýr Zomers, Hildur Antonsdóttir og Telma Ívarsdóttir. Þær skiluðu allar sínu í sterkum 1-0 sigri gegn Wales í fyrsta leik í Þjóðadeildinni.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í þessa þrjá leikmenn á fréttamannafundi í kvöld.
„Mér fannst Telma frábær í markinu, hún var örugg í öllu sem hún var að gera. Hún greip frábærlega inn í og var frábær í þessum leik. Diljá gerði það sem við ætluðumst til af henni. Diljá skilaði þessu fínt," sagði Steini.
„Hildur var svo eins og vél inn á miðjunni. Hún vann mikið af boltanum og náði að keyra á þær. Hún hefði mátt vera rólegri á boltanum, en hún hefur burði til að vera lykilmaður í landsliðinu næstu árin."
Næsti leikur er gegn Þýskalandi á útivelli og verður áhugavert að sjá hvort liðið nái að stríða sterku liði Þjóðverja.
Athugasemdir