Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 23. febrúar 2023 14:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Með sama fjármagn síðan þeir voru í neðstu deild - „Þetta er stórt stökk"
Lengjudeildin
Úr leik hjá Ægi síðasta sumar.
Úr leik hjá Ægi síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nenad Zivanovic og Baldvin Már Borgarsson, þjálfarar Ægis.
Nenad Zivanovic og Baldvin Már Borgarsson, þjálfarar Ægis.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ægir tapaði 3-0 fyrir Augnabliki um síðustu helgi.
Ægir tapaði 3-0 fyrir Augnabliki um síðustu helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það verður fróðlegt að fylgjast með Þorlákshafnarbúum í Lengjudeildinni.
Það verður fróðlegt að fylgjast með Þorlákshafnarbúum í Lengjudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það var tilkynnt á dögunum að Ægir myndi taka sæti Kórdrengja í Lengjudeild karla fyrir komandi sumar.

Þátttökutilkynning Kórdrengja var ekki talin fullnægjandi og því var þeim vísað úr keppni.

Ægir var að undirbúa sig á fullu fyrir 2. deildina þegar þeim var tilkynnt það að þeir myndu spila í Lengjudeildinni í sumar. Ægir hafnaði í þriðja sæti 2. deildar síðasta sumar.

„FH stekkur inn og það var búið að skrá Kaplakrika sem heimavöll Kórdrengja inn á vefsíðu KSÍ. Þá hættum við alveg að pæla í þessu, þá var þetta út af borðinu hjá okkur. Okkar hugarfar var bara að fara inn í 2. deild og vinna hana," sagði Baldvin Már Borgarsson, aðstoðarþjálfari Ægis, viðtali við Fótbolta.net fyrr í þessari viku.

„Þegar við Nenad (Zivanovic) tökum við liðinu 2019 þá segir Nenad við hópinn að við ætluðum að vera komnir upp í Lengjudeild á fjórum árum. Leikmenn hristu eiginlega hausinn yfir því verandi með lið í 4. deild á þeim tíma. Við tökum milliskref í 3. deild og við héldum að við værum að taka annað milliskref núna - værum einu ári á eftir áætlun - en út frá þessum aðstæðum er markmiðasetningin að ganga upp."

„Það er samt auðvitað leiðinlegt hvernig þetta gerist, það er glatað að félag sem er búið að byggja sig upp sé bara úti," segir Baldvin.

Lengjudeildin er stórt stökk
Baldvin viðurkennir að það sé erfitt að taka stökkið upp í Lengjudeildina, sérstaklega með lítinn undirbúning eins og raunin núna. Hann segir að það séu vonbrigði að þetta mál hafi tekið svona langan tíma hjá KSÍ.

„Það segir sig sjálft að við erum ekki endilega að keppa á jöfnum grundvelli þegar síðasta umferð í 2. deild er 17. september, og fyrir þann tíma voru Njarðvík og Þróttur búin að tryggja sig upp. Þau lið geta strax farið að undirbúa sig fyrir Lengjudeildina, talað við ákveðna leikmenn og sótt sér styrki á þeim forsendum að þau séu að spila í Lengjudeild," sagði Baldvin.

„Það kostar meira að halda úti Lengjudeildarliði, þetta er stórt stökk. Ég veit ekki til þess að Ægir úr Þorlákshöfn hafi einhvern tímann séð það fyrir sér að spila í sömu deild og ÍA, sem er stórveldi í íslenskum fótbolta. Þetta er glæný áskorun og við erum að fá tvo og hálfan mánuð til að undirbúa þetta. Við erum núna farnir að tala við fyrirtæki um það hvort það sé ekki hægt að auka styrkinn frekar. Ægir hefur verið rekið á sama fjármagni (e. budget) frá því við komum inn í félagið, árið 2019 þegar við vorum í 4. deild. Núna erum við að spila á móti liðum eins og ÍA og Grindavík þar sem er miklu meiri alvara á bak við þetta. Við þurfum að spýta í lófana og bæta alls konar hluti."

Töpuðu gegn liði úr 3. deild
Ægir þarf að styrkja sig ef liðið ætlar að halda sér uppi í Lengjudeildinni í sumar. Liðið tapaði óvænt gegn Augnabliki, sem er í 3. deild, í Lengjubikarnum á dögunum.

„Nenad hefur komið í byrjun febrúar öll þessi ár. Ég hef alltaf séð um liðið í nóvember, desember og janúar. Um daginn spiluðum við æfingaleik við Þrótt Reykjavík þar sem ég mæti einn með liðið og ég lít yfir þar sem þeir eru með styrktarþjálfara að hita liðið upp, þar er markmannsþjálfari, Ian Jeffs þjálfari og einhver aðstoðarþjálfari að spá og spekúlera. Það eru meira að segja tveir liðsstjórar á svæðinu," sagði Baldvin.

„Þú ert með skýrt dæmi um stórt félag sem getur æft klukkan fimm á eigin vallarsvæði, þegar þeim hentar. Á meðan erum við ekki með viðunandi aðstöðu í Þorlákshöfn. Við erum að slást um einhverja æfingatíma í bænum og á Selfossi... þetta er raunveruleikinn sem við erum að lifa við. Við erum að keppa á allt öðrum forsendum núna en um síðustu helgi."

Nenad Zivanovic, aðalþjálfari liðsins, er núna mættur til landsins. „Við erum núna að keyra liðið í gang því við þurfum að toppa á réttum tíma. Við getum ekki gert kröfur á menn sem fá ekki krónu borgaða fyrir undirbúningstímabilið að halda sér í standi allt árið. Það er eflaust einhver voða þórðargleði yfir því að við töpuðum 3-0 gegn Augnabliki en við tókum mjög erfiða æfingaviku og vorum með mjög erfiða æfingu daginn fyrir leik. Menn voru þreyttir í leiknum og við bjuggumst við því."

„Lengjubikarinn hjá okkur fer í þetta, við erum ekki að horfa í einhver úrslit þar. Við þurfum að kasta honum í það að spila okkur í almennilegt stand. Við erum að undirbúa okkur fyrir allt annað en fyrir viku síðan."

Baldvin hefur ekki áhyggjur af tapinu gegn Augnabliki, liðið sé að koma sér almennilegt stand fyrir mótið í sumar. Liðið, og félagið, þarf líkt og áður segir að styrkja sig.

Hægt er að hlusta á spjallið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræðir Baldvin meira um sumarið og stöðuna hjá Ægi.
Ægismenn fá allt aðra áskorun - Upp um deild í febrúar
Athugasemdir
banner
banner
banner