Ronaldo vill fá Casemiro til Sádi-Arabíu - Man Utd gæti gert lánstilboð í Kolo Muani - Dortmund hefur áhuga á Rashford
   fös 23. ágúst 2019 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Best í 14. umferð: Mesti skandall í sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi ef Valur vinnur ekki
Arna Sif Ásgrímsdóttir (Þór/KA)
Arna Sif í leik með Þór/KA fyrr í sumar.
Arna Sif í leik með Þór/KA fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif í baráttunni við Fanndísi Friðriksdóttur.
Arna Sif í baráttunni við Fanndísi Friðriksdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur á móti góðu Keflavíkurliði. Þær voru betri í fyrri og við í seinni. Vorum lengi í gang en áttum gott spjall í hálfleik og á endanum var þetta sanngjarn sigur," sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir leikmaður Þórs/KA sem skoraði tvívegis í 3-1 sigri liðsins á Keflavík í 14. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í síðustu viku.

Arna Sif er leikmaður 14. umferðar Pepsi Max-deildarinnar.

„Tilfinningin að skora tvö mörk í sama leiknum var mjög góð. Það var farið að leggjast aðeins á sálina hvað ég var að gefa liðinu lítið í föstum leikatriðum. Þetta er minn styrkleiki og á að vera dauðfæri en ég hef ekki verið að gera mig líklega í sumar. Því var það mikill léttir og frábær tilfinning að geta hjálpað liðinu með mörkum."

„Ég hef ekki verið nægilega ánægð með mína spilamennsku í sumar. Ég var mikið að harkast í vetur á öðrum fæti og fór þannig inní mótið. Það hefur verið mikið um meiðsli og það er erfitt andlega og líkamlega. Eins skemmtilegur og fótbolti er þá getur hann verið jafn leiðinlegur þegar manni líður ekki vel," sagði Arna Sif sem segir spilamennsku Þórs/KA liðsins sem situr í 3. sæti deildarinnar hafa verið upp og niður.

„Við höfum átt mjög góða leiki og svo höfum við líka átt slaka leiki. Okkur hefur vantað einhvern stöðugleika. Við eigum ekki að vera svona mörgum stigum frá toppnum," sagði Arna Sif sem viðurkennir að það komi henni á óvart hversu langt liðið er frá toppbaráttunni.

„Ég hélt fyrir mót að við yrðum með í baráttunni um titilinn, tilfinningin var þannig. Það hefur einnig komið mér á óvart hvað þetta er þéttur pakki á hin liðin. Þetta eru allt góð lið sem ennþá geta fallið."

Hvernig skýrir hún þennan mun á Breiðabliki og Val frá hinum liðunum.

„Ég held ég geti ekki sagt til um það. Þetta eru vissulega frábær fótboltalið en það á ekki að vera 14 stig frá 2. sæti niður í 3. í efstu deild kvenna. Það er alltof mikið," sagði Arna Sif sem var að lokum beðin um að spá fyrir um það hvaða lið verður Íslandsmeistari í lok sumars.

„Það er mjög góð spurning. Fyrir mér væri það einhver mesti skandall í sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi ef Valur myndi ekki taka þetta. Þær eru með svo rosalegt lið. En það er ekki hægt að afskrifa Blikana. Ætli þetta skýrist ekki bara á dagsforminu 15. september," sagði Arna Sif fyrrum leikmaður Vals að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Best í 13. umferð - Ída Marín Hermannsdóttir (Fylkir)
Best í 12. umferð - Margrét Lára Viðarsdóttir (Valur)
Best í 11. umferð - Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir (Stjarnan)
Best í 10. umferð - Hólmfríður Magnúsdóttir (Selfoss)
Best í 9. umferð - Sandra Mayor (Þór/KA)
Best í 7. umferð - Natasha Anasi (Keflavík)
Best í 6. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 5. umferð - Cloe Lacasse (ÍBV)
Best í 4. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 3. umferð - Birta Guðlaugsdóttir (Stjarnan)
Best í 2. umferð - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Best í 1. umferð - Hlín Eiríksdóttir (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner