Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   fös 24. maí 2024 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Jason hefur engan áhuga á að tala við önnur íslensk félög"
Hugurinn leiti út fyrir landsteinana
Verið frábær fyrir Breiðablik frá komu sinni frá Aftureldingu.
Verið frábær fyrir Breiðablik frá komu sinni frá Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ef hann spilar vel þá hjálpar hann okkur að vera betra lið og við hjálpum honum að taka næsta skref á sínum ferli'
'Ef hann spilar vel þá hjálpar hann okkur að vera betra lið og við hjálpum honum að taka næsta skref á sínum ferli'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jason skoraði sitt þriðja deildarmark í sumar í sigrinum gegn Stjörnunni.
Jason skoraði sitt þriðja deildarmark í sumar í sigrinum gegn Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skorað 35 mörk og lagt upp 26 samkvæmt tölfræði Transfermarkt.
Skorað 35 mörk og lagt upp 26 samkvæmt tölfræði Transfermarkt.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Minnir á stöðu Birnis í fyrra.
Minnir á stöðu Birnis í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Um síðustu helgi var sagt frá því í útvarpsþættinum Fótbolti.net að Víkingur hefði sett sig í samband við Breiðablik til að láta vita að félagið ætlaði að ræða við Jason Daða Svanþórsson.

Jason Daði er leikmaður Breiðabliks, lykilmaður í liðinu og einn allra besti leikmaður Bestu deildarinnar. Samningur hans rennur út í haust og þar sem minna en sex mánuðir eru í það mega önnur félög ræða við hann.

Jason staðfesti svo í viðtali eftir leikinn gegn Stjörnunni að Valur hefði einnig haft samband.

„Þessi félög hafa gert það en það eru ekki neinar viðræður í gangi þannig ég er bara leikmaður Breiðabliks og er mjög sáttur hér," sagði Jason og sagði að samtalið um nýjan samning hjá Breiðabliki héldi áfram.

Jason er 24 ára kantmaður sem kom í Breiðablik frá uppeldisfélaginu Aftureldingu árið 2020. Samkvæmt Transfermarkt hefur hann skorað 35 mörk og lagt upp 26 í 121 leik fyrir Breiðablik.

Fótbolti.net ræddi í dag við Halldór Árnason sem er þjálfari Breiðabliks og var hann spurður út í stöðuna á Jasoni.

„Jason er einn af ansi mörgum leikmönnum hjá okkur sem er að renna út og einn af mörgum góðum leikmönnum í deildinni sem er að renna út á samningi. Félögum er auðvitað frjálst að senda tölvupóst, en það breytir því ekki að Jason er með alla einbeitingu á Breiðablik í dag. Hans hugur leitar út fyrir landsteinana. Ef hann helst heill, heldur áfram að spila vel og er einn besti leikmaður deildarinnar eins og síðustu ár, þá er það auðvitað mjög eðlilegt. Í dag held ég að hann sé ekki að hugsa um neitt annað en að standa sig vel fyrir Breiðablik, vera heill og spila vel og vonar að það skili honum tækifæri á að komast út," sagði Dóri.

Jason hefur verið orðaður við erlend félög frá komu sinni í Breiðablik. Hann hafnaði sjálfur tækifærinu á að fara til Sogndal fyrir tímabilið 2022, AGF boðaði hann á reynslu á sínum tíma og í vetur var fjallað um áhuga HamKam á honum.

'Win-win' staða
Hvað finnst þér sem þjálfari um stöðuna að félagið sé ekki búið að semja við hann?

„Þó að það sé ekki búið að semja við hann þá eru búin að eiga sér stað fjölmörg samtöl. Menn eru samstíga í því sem þeir eru að gera. Við höfum engar áhyggjur af því að hann sé að tala við önnur íslensk félög af því hann er ekki að því og hefur ekki áhuga á því. Þau félög sem hafa haft samband að það sé enginn áhugi af hans hálfu að taka það áfram."

„Ég er rólegur yfir þessu. Jason er auðvitað mikilvægur leikmaður fyrir okkur og ég held þetta sé 'win-win' staða. Ef hann spilar vel þá hjálpar hann okkur að vera betra lið og við hjálpum honum að taka næsta skref á sínum ferli."


Snýst um bestu útfærsluna
Skiluru hans stöðu, að eiga lítið eftir af samningi sem gæti auðveldað honum að fara út?

„Þetta snýst kannski ekkert endilega um það, heldur bara hvernig besta útfærslan á þessu öllu saman er. Við erum búin að vera í góðum viðræðum við hann í nokkurn tíma og það hafa allir skilning á stöðunni. Hann er einbeittur á Breiðablik í dag og við sjáum hvað verður eftir tímabilið. Fyrst og fremst þarf hann að spila vel og haldast heill."

Staðan minnir undirritaðan á stöðu Birnis Snæs Ingasonar sem var besti leikmaður síðasta tímabils. Samningur hans við Víking var að renna út í lok síðasta árs og Breiðablik setti sig í samband við hann síðasta sumar. Birnir endursamdi við Víking og gat svo farið, nokkuð laus við mögulegar hindranir, út í atvinnumennsku í vetur. Birnir er í dag leikmaður Halmstad í Svíþjóð.

Vonar að draumur Jason um atvinnumennsku rætist
Fyrir þig sem þjálfarinn hans, hver er draumaniðurstaðan? Viltu að hann framlengi og verði áfram hjá Breiðabliki eða viltu sjá hann taka skrefið út?

„Eftir að hafa unnið lengi með Jasoni og veit að hans hugur leitar erlendis - við vitum það allir að hann er klárlega nógu góður til að spila í sterkum deildum - þá vonar maður að sá draumur gangi upp einn daginn. Ég held að hann hafi skilað það miklu til félagsins yfir langan tíma að það gætu allir unað honum það að fara í atvinnumennsku."

Eigum ennþá aðeins inni
Í lok viðtalsins var Dóri spurður út í stöðuna á hópnum fyrir komandi leik gegn Fram og byrjunina á tímabilinu. Hann sagði að í dag væru allir leikmenn í hópnum heilir, en nokkrir þó nýstignir upp úr meiðslum. Þeir Dagur Örn Fjeldsted og Aron Bjarnason misstu sem dæmi af síðasta leik vegna meiðsla.

Breiðablik hefur unnið fimm af fyrstu sjö leikjunum í deildinni. Er Dóri sáttur með byrjunina?

„Ég er sáttur með margt. Mér líður eins og öll stigin, allir sigurleikirnir, hafi verið mjög verðskuldaðir. Ég gæti alveg hugsað mér að vera með eitt stig í viðbót, en heilt yfir þá hefur þetta verið ágæt frammistaða á stórum köflum. Það er erfitt að kvarta yfir því að vera í 2. sæti og einum sigurleik frá efsta sætinu. Það hefur verið smá meiðslabras og ég held að við eigum ennþá inni, eigum aðeins í land upp á að vera á okkar allra besta degi," sagði þjálfarinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner