Hefur áhyggjur af því að litið verði á einvígið sem biðstofu
Þetta er önnur skepna, en að því sögðu þá verðum við að hugsa þannig að við eigum að vinna heimaleikinn
„Leikurinn á morgun er risastór, FCK er auðvitað stórt lið með mikla Evrópuhefð," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net í dag.
Framundan er fyrri leikur Breiðabliks gegn FCK í forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn fer fram á Kópavogsvelli annað kvöld.
Framundan er fyrri leikur Breiðabliks gegn FCK í forkeppni Meistaradeildarinnar. Leikurinn fer fram á Kópavogsvelli annað kvöld.
„Ég átta mig ekki á því, ég hef reynt að predika það að næsti leikur er alltaf mikilvægasti leikurinn. Þessi er ekkert öðruvísi en það, en auðvitað finnur maður að áhuginn er meiri, finnur að sviðið er að stækka. Leikurinn er stór og það er okkar að gera hann ennþá stærri með góðri frammistöðu."
Óskar segir að allir í hópnum séu klárir í slaginn. „Eftir því sem ég kemst næst, Gísli fékk högg á móti ÍBV og Jason fékk aðeins framan á læri, en ég held að þeir séu báðir búnir að hrista það af sér."
Er FCK allt annað skrímsli en Shamrock Rovers?
„FCK er töluvert betra lið en Shamrock Rovers, lið sem vann tvöfalt í Danmörku á síðasta tímabili, auðvitað aðeins breytt lið og sennilega ekki búnir að styrkja liðið jafnmikið akkúrat á þessum tímapunkti og þeir hefðu viljað. Þeir eru með feikilega öfluga leikmenn, mikil einstaklingsgæði og þeir ná í úrslit. Þeir finna leiðir, rútínerað lið með mikla sigurhefð og mikla Evrópuhefð og með þjálfara sem er búinn að ná frábærum árangri. Þetta er önnur skepna, en að því sögðu þá verðum við að hugsa þannig að við eigum að vinna heimaleikinn."
Þarf að aðlaga gildi liðsins eitthvað út af stærð og gæðum andstæðingsins?
„Nei, um leið og við ætlum að falla (til baka) þá myndum við lenda í stórkostlegum vandræðum með þá. Auðvitað, á einhverjum tímapunkti, þá munu þeir þrýsta okkur niður. Ég held að það sé alveg ljóst. Við þurfum að passa upp á að reyna verjast þeim eins hátt og við getum á vellinum, reyna vera eins agressífir og við getum, reyna skrúfa upp ákefðina og reyna eftir fremsta megni að láta þeim líða illa."
„Liðið þarf að eiga sinn allra besta leik og við þurfum að vera mjög öflugir í teigunum báðum megin. Við þurfum að verjast þeim vel inni í teig, halda einbeitingu og svo þurfum við að fara betur með þær stöður sem við fáum á síðasta þriðjungi. Við getum ekki leyft okkur að fara jafn illa með færin og við gerðum á móti Shamrock - það er alveg ljóst. Þau munu ekki koma á færibandi færin á móti FCK þannig við þurfum að fara vel með þau. Svo þarf ákefðin og grimmdin að vera til staðar."
„Það hefur verið talað um það að við eigum þrjú einvígi eftir að minnsta kosti. Ég hef smá áhyggjur af því að menn líti á þetta einvígi sem einhvers konar biðstofu fyrir næsta einvígi. Ég held það sé gríðarlega mikilvægt að ýta þeirri hugsun frá sér. FCK er andstæðingurinn núna og hann er andstæðingur sem við vitum að er gríðarlega öflugur. En það er algjörlega tilgangslaust að mæta ef þú trúir því ekki að þú getir unnið leikinn - að þú trúir ekki að þú getir spilað með þeim. Þá áttu ekkert heima í þessari Meistaradeild eða Evrópukeppni. Við þurfum að passa okkur á því að mæta til leiks með það markmið og þá trú að við getum unnið þennan leik."
Þannig það má ekki horfa á hin einvígin sem eitthvað öryggisnet?
„Ég held það sé mjög mikilvægt, það er ekkert öryggisnet. Það er bara leikurinn á morgun og þetta einvígi. Það má ekki nota þetta sem biðstofu fyrir næsta einvígi, getum ekki farið að spara okkur í þessu einvígi af því við ætlum að vera ferskari fyrir einvígið á eftir. Þetta er bara full ferð, skrúfa upp tempóið og grimmdina fyrir morgundaginn og sjá hvert það leiðir okkur," sagði Óskar.
Hvernig er FCK í styrkleika samanborið við Istanbul Basaksehir sem sló út Breiðablik í forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.
„Ég átta mig ekki á því, FCK fer í riðlakeppnina í Meistaradeildinni í fyrra og geri ráð fyrir því að þeir séu sterkari en Istanbul Basaksehir. Það er erfitt að segja til um það, þeir hafa náð frábærum úrslitum í Evrópukeppni, slógu út Trabzonspor í fyrra, tyrknesku meistarana, sem áttu svo kannski ekkert sérstaklega gott tímabil í Tyrklandi. Þeir komust þannig inn í riðlakeppnina. Ég á bara von á mjög sterku og öflugu FCK liði. Við þurfum að eiga okkar allra besta leik og það væri bara frábært að ná því fram. Við þurfum að vera trúir því sem við stöndum fyrir, ekki fara að verja eitthvað sem við eigum ekki og þurfum að keyra fram á við. Við verðum að vera hugrakkir og kröftugir," sagði Óskar.
Hann talar einnig um mætinguna gegn ÍBV, leikinn gegn ÍBV, leik FCK gegn Lyngby, Frey Alexandersson, leit að sóknarmanni og samskipti við son sinn, Orra Stein, í aðdraganda leiksins. Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir