Miðjumaðurinn Morgan Gibbs-White er mættur í æfingabúðir Nottingham Forest í Portúgal en hann missti af byrjun undirbúningstímabilsins af persónulegum ástæðum sem ekki tengjast fótbolta.
Tottenham reyndi fyrr í þessum mánuði að kaupa leikmanninn og gerði 60 milljóna punda tilboð.
Forest var ekki sátt og sakaði félagið um að hafa nálgast leikmanninn á óheiðarlegan hátt. Gibbs-White ku vilja fara til Spurs en Forest er sagt vilja selja hann frekar í annað félag vegna hegðunarinnar.
Forest hefur reynt að fá Gibbs-White til að gera nýjan samning en það hefur ekki borið árangur. Forest hefur þegar misst einn lykilmann í sóknarleik sínum í sumar eftir að Anthony Elanga var seldur til Newcastle.
Félagið vonast til að Callum Hudson-Odoi geri nýjan samning og þá hefur það áhuga á Jacob Ramsey miðjumanni Aston Villa, James McAtee hjá Manchester City og svissneska sóknarmanninum Dan Ndoye sem er hjá Bologna á Ítalíu.
Athugasemdir