Isak til Liverpool og Sesko til Newcastle - Aston Villa segir nei við United - Bayern ætlar sér að fá Díaz
   fim 24. júlí 2025 20:29
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin: Víkingur tapaði í Albaníu
Mynd: Skjáskot/Valur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vllaznia 2 - 1 Víkingur R.
0-1 Karl Friðleifur Gunnarsson ('10)
1-1 Melos Bajrami ('67)
2-1 Esat Mala ('75)

Lestu um leikinn: Vllaznia 2 -  1 Víkingur R.

Víkingur R. heimsótti Vllaznia til Albaníu í Sambandsdeildinni í kvöld og byrjuðu gestirnir úr Fossvoginum talsvert betur. Nikolaj Hansen fékk gott færi snemma leiks en skallaði beint á markvörð Vllaznia. Skömmu síðar leit fyrsta markið dagsins ljós.

Karl Friðleifur Gunnarsson skallaði þá hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni í netið til að taka forystuna.

Víkingur var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komst Valdimar Þór Ingimundarson nálægt því að tvöfalda forystuna eftir skyndisókn, en skot hans endaði framhjá markinu. Staðan var því 0-1 fyrir Víking í hálfleik.

Helgi Guðjónsson hæfði slána með frábæru skoti utan teigs í upphafi síðari hálfleiks en Albanirnir tóku völdin á vellinum eftir þetta.

Þeir ógnuðu og ógnuðu þar til Melos Bajrami jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu á 67. mínútu.

Víkingar tóku að sækja meira eftir þetta en gáfu færi á sér. Vllaznia keyrði upp í tvær skyndisóknir og skoraði úr einni þeirra þegar leikmenn liðsins komust í góða stöðu þrír á þrjá. Esat Mala gerði allt sjálfur, rak boltann og kláraði svo með skoti sem fór af Oliver Ekroth og í netið.

Níu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en Víkingum tókst ekki að skora þrátt fyrir fína tilraun, svo lokatölur urðu 2-1 fyrir Vllaznia. Víkingar þurfa því sigur í seinni leiknum.

Sigurliðið úr einvíginu mætir annað hvort Bröndby eða HB Torshavn í næstu umferð. Bröndby er líklegri andstæðingurinn, enda eru Danirnir með eins marks forystu í fyrri leik liðanna í Færeyjum sem stendur.
Athugasemdir
banner