Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var tekinn tali eftir markalaust jafntefli sinna manna gegn toppliði ÍA á Skaganum í kvöld þar sem heimamenn misnotuðu tvær vítaspyrnur.
Lestu um leikinn: ÍA 0 - 0 HK
„Það er í sjálfu sér ágæt úrslit að fá eitt stig uppi á Skaga, það er alltaf erfiður völlur að koma á. Við tökum það úr því sem komið var. Tvö víti sem Arnar ver frábærlega. Veit ekki hvort það hafi átt að vera neitt víti og kannski áttu að vera þrjú víti, það er ómögulegt að sjá það þar sem ég stend. Úrslit leiksins fín fyrir bæði lið held ég," sagði Brynjar inntur eftir viðbrögðum eftir leik.
HK og ÍA hafa nú mæst tvisvar í sumar en ekkert mark var skorað í leikjum liðanna.
„Frábærir leikir, tvö góð lið og gaman að spila við Skagann. Það eru, eins og þú segir, alvöru leikir og alvöru barátta og barist um alla bolta og menn reyna að setja boltann niður þegar það á við og reyna að spila honum. Virkilega skemmtilegir leikir að horfa á."
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























