
„Svekkjandi tap eftir frábæran fyrri hálfleik. Við sýndum geggjað skipulag í fyrri hálfleik en þetta er bikarleikur og þess vegna endar þetta svona stórt. Svekkjandi að lenda undir eftir fast leikatriði og síðan kom annað mark fljótlega og útaf því að þetta er bikarleikur tókum við fleiri sénsa en í deildarleik hefðum við haldið skipulagi og örugglega stolið þessu undir lokinn." Segir Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari Dalvík/Reynis eftir 6-0 tap gegn HK í Mjólkurbikarnum.
Lestu um leikinn: HK 6 - 0 Dalvík/Reynir
Stuðningsmenn Dalvík/Reynis voru magnaðir í dag og Pétur var ánægður með stuðninginn.
„Eftir síðasta leik bað ég um heimaleik og þetta var heimaleikur á útivelli. Við áttum stúkuna frá upphafi og menn byrjuðu að syngja og tralla klukkan korter yfir eitt og strákarnir fundu það þegar þeir mættu í Kórinn hvað þetta skiptir miklu máli og þessi geggjaði stuðningur hjálpaði í dag."
Stefán Ingi Sigurðarson gerði norðanmönnum erfitt fyrir í dag og setti fernu á tæpum 20 mínutum.
„Það eru margir góðir í HK og þeir áttu kanónur á bekknum sem þeir gátu sett inn á þegar við vorum orðnir þreyttir."
Dalvík/Reynir eru í bullandi baráttu um það að fara upp um deild í 3. deildinni og geta nú einbeitt sér að því að fullu.
„Þetta var frábært ævintýri og við erum mjög ánægðir með að hafa komist svona langt en eins og góður maður sagði þá er bikarkeppnin plastspotti sem er alltaf að þvælast fyrir manni og leikjaálagið er mikið en þetta var frábært ævintýri og það er fínt að vera laus við þetta til að einbeita sér að deildinni."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan
Athugasemdir