Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 27. júní 2022 12:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Leikmenn á förum úr Garðabæ? - „Auðvitað hafa þessir tveir bankað upp á hjá mér"
Óskar Örn
Óskar Örn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Gauti
Brynjar Gauti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gústi Gylfa
Gústi Gylfa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Greint var frá því í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær að tveir leikmenn Stjörnunnar væru mögulega á förum frá félaginu. Leikmennirnir sem voru nefndir í þættinum voru þeir Brynjar Gauti Guðjónsson og Óskar Örn Hauksson.

„Ég heyri úr öllum áttum, frá teyminu hans Óskars Arnar Haukssonar, að hann ætlar að koma sér úr Garðabænum. Garðabærinn er með annað 'project' í gangi og sagan segir að Óskar Örn sé á leiðinni í Hafnarfjörðinn, ætli sér ekki að taka þátt í þessu verkefni í Garðabænum þar sem það er ekki verið að nota hann," sagði Hjörvar. Hann kom svo inn á að Stjörnuliðið í ár sé ungt og enginn pressa sé á þjálfurunum Ágústi Gylfasyni og Jökli Elísabetarsyni frá Garðbæingnum. „Þeir eru að spila á ungu strákunum og Garðbæingar elska þá."

„Hafið þið heyrt að Brynjar Gauti sé hættur í Stjörnunni?" spurði Hjörvar. Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur í þættinum, sagðist hafa heyrt af því að Brynjar væri ekki sáttur með sína stöðu.

Óskar Örn er 37 ára gamall og gekk í raðir Stjörnunnar frá KR í vetur. Hann hefur verið ónotaður varamaður í tveimur af síðustu þremur leikjum Stjörnunnar. Brynjar Gauti hefur komið við sögu í fjórum leikjum í Bestu deildinni í sumar - einungis einu sinni verið í byrjunarliðinu. Í síðustu fimm deildarleikjum hefur hann einu sinni komið inn á sem varamaður, einu sinni verið á bekknum og þrisvar sinnum verið utan hóps.

Fótbolti.net ræddi við Ágúst Gylfason í dag og spurði hann út í stöðu þessara tveggja leikmanna.

„Eðlilega eru menn kannski ósáttir við spilatíma, leikmenn sem eru vanir því að spila mikið í gegnum tíðina. Það er auðvitað mikil samkeppni í liðinu. Auðvitað hafa þessir tveir bankað upp á hjá mér og spurt út í spilatíma, vilja fá meiri spilatíma og traust."

Sjá einnig:
Ekkert ósætti en leikmenn verða mögulega ósáttir - „Mig svimar" (19. maí)
Útskýrir af hverju Óskar spilaði ekki gegn KR í gær

Hafa þessir tveir leikmenn rætt við þig og óskað eftir því að fá að fara frá Stjörnunni?

„Við höfum átt okkar samtöl okkar á milli varðandi spilatímann. Mín svör eru að það sé bara samkeppni. Hvort þeir vilji fara er svo annað, eitthvað sem fjölmiðlar hafa verið að kasta upp."

„Það hafa komið fyrirspurnir til okkar um þessa tvo leikmenn. Svörin okkar eru ekkert á þá leið að þeir megi fara."

„Núna erum við í smá pásu, vika í næsta leik. Við erum með góðan hóp en hann er samt ekkert risastór. Við erum bara dálítið að melta hlutina hvað við ætlum að gera, ég og leikmennirnir."

„Staðan er þessi að við erum með einhverja leikmenn sem vilja fá fleiri mínútur, bæði ungir og eldri leikmenn. Svo á móti erum við með aðra sem eru að spila meira en þeir bjuggust við og eru að fá meira traust. Þetta eru hlutir sem þjálfari þarf að díla við, starfið okkar er að halda mönnum við efnið og það er erfitt þegar þú ert með tuttugu manna hóp að allir séu sáttir."


Félagaskiptaglugginn hér á landi opnar á miðvikudaginn og lokar á miðnætti 26. júlí.

„Það er aðeins verið að krukka í þessa menn, þá Óskar og Brynjar Gauta. Þetta er bara hlutverk þjálfarans, ég er ekkert eini sem er að glíma við þetta í deildinni. Það væri óeðlilegt ef allir væru sáttir. Við skoðum hvert dæmi fyrir sig, leikmenn hjá menn fá allir að vita ef eitthvað félag hefur samband. Ég vil vera sá fyrsti til að segja mönnum frá því að það hafi komið fyrirspurnir, vil ekki fara fela það fyrir mönnum."

Eins og sjá má hér að ofan var sagt í Dr. Football að Brynjar Gauti væri jafnvel hættur í Stjörnunni.

„Brynjar Gauti er að æfa með okkur, hvort að menn vilji fara eða ekki fara þá er það eitthvað sem við höfum rætt sjálfir við okkar leikmenn. Við erum með sama hóp og byrjaði mótið."

Stjarnan er í 2. sæti Bestu deildarinnar eftir tíu umferðir. Liðið er ellefu stigum á eftir toppliði Breiðabliks sem hefur leikið leik meira. Í spá Fótbolta.net fyrir mót var Stjörnunni spáð sjötta sæti í deildinni.
Athugasemdir
banner
banner