Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 27. júlí 2022 21:34
Elvar Geir Magnússon
'Milos burt' hrópuðu stuðningsmenn Malmö
Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings, stýrir Malmö.
Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings, stýrir Malmö.
Mynd: Raggi Óla
Sænsku meistararnir í Malmö eru fallnir úr leik í Meistaradeildinni eftir að hafa tapað gegn Zalgiris frá Litháen í forkeppninni. Malmö sló Víking Reykjavík naumlega úr leik í umferðinni á undan.

Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks, stýrir Malmö en eftir leikinn í kvöld var hrópað úr stúkunni og kallað eftir því að hann yrði látinn fara.

Milos sagði við Aftonbladet eftir leikinn að hann tæki fulla ábyrgð á úrslitunum en sagðist ekki hafa heyrt hvað áhorfendur kölluðu eftir leikinn.

„Nei ég heyrði það ekki en ég skil pirring stuðningsmanna. Þeir létu í sér heyra í 90 mínútur en við náðum ekki að nýta okkur stuðninginn. Stuðningsmennirnir voru betri en við vorum á vellinum í dag," sagði Milos eftir 0-2 tap á heimavelli í kvöld.

Blaðamaður lét þá Milos vita að kallað hefði verið 'Milos out' eða 'Milos burt'.

„Ég er ekki ánægður með það en þeir eiga rétt á því að hrópa það sem þeir vilja. Þeir eiga rétt á því. Þeir borga sig inn á völlinn. Þeir öskruðu eitthvað sem ég er ekki ánægður með að heyra en þetta er ekki spurning fyrir mig heldur fyrir stjórnina og yfirmenn mína," sagði Milos.

Milos sagðist ekki getað svarað spurningum um sína stöðu en liðið er í fimmta sæti í sænsku úrvalsdeildinni og fer niður í Evrópudeildina eftir úrslit kvöldsins.

„Það er eitthvað sem stjórnin ákveður, ekki ég. Það var ekki ég sjálfur sem réði mig. Núna er ég stjóri Malmö og vinn allan sólarhringinn þar til mér er sagt annað. Ég læt ykkur vita ef staðan breytist."
Athugasemdir
banner
banner