Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 28. febrúar 2023 16:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óttast að Glazer muni ekki selja - Tilboðin lægri en þau bjuggust við
Avram Glazer var í stúkunni á úrslitaleik enska deildabikarsins.
Avram Glazer var í stúkunni á úrslitaleik enska deildabikarsins.
Mynd: Getty Images
Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani, bankastjórinn frá Katar, sem vill kaupa Manchester United.
Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani, bankastjórinn frá Katar, sem vill kaupa Manchester United.
Mynd: Jassim Bin Hamad Al Thani
Mynd: EPA
Avram Glazer, eigandi Manchester United, fagnaði með liðinu inn í búningsklefa eftir að það vann enska deildabikarinn á Wembley síðasta sunnudag.

Það kom verulega á óvart að Glazer hafi ákveðið að mæta á leikinn enda eru Glazer-fjölskyldan ekki beint í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins enda hafa þeir dregið gríðarlega mikinn pening úr félaginu og bætt miklum skuldum ofan á það.

Stuðningsmenn hafa lengi vel mótmælt eignarhaldinu og kallað eftir því að félagið verði selt. Á síðustu mánuðum hefur Glazer-fjölskyldan verið að hugsa um að selja en samkvæmt Sky Sports er núna óttast um að það muni ekki gerast.

Glazer-fjölskyldan er tvístíga hvort það sé rétt að selja; ekki eru allir fjölskyldumeðlimirnir sammála um hvað sé rétt að gera á þessum tímapunkti. Tilboðin hafa allavega ekki verið nægilega góð núna.

Tvö tilboð hafa borist í félagið, frá katarska bankastjóranum Sheikh Jassim Bin Hamad Al Thani og frá Sir Jim Ratcliffe, ríkasta manni Bretlands. Glazer-fjölskyldan er að biðja um 6 milljarða punda, sem myndi gera United að langdýrasta íþróttafélagi sögunnar, en tilboðin sem hafa borist eru ekki nálægt þeim verðmiða.

„Glazerarnir telja að þú eigir að gera gjörsamlega allt til að eignast Man Utd; ef þú ætlar að taka félagið af þeim þarftu að setja peningana á borðið," sagði íþróttafréttakonan Melissa Reddy á Sky Sports í dag. „Í augnablikinu virðist sem þeir mjög tregir við að yfirgefa félagið, sérstaklega ef enginn kemst nálægt verðmati þeirra."

Sky fjallar um að Glazer-fjölskyldan hafi mislesið markaðinn og félagið sé ekki 6 milljarða punda virði, en það er mikið og stórt verkefni að kaupa Man Utd, og það er svo sannarlega ekki fyrir hvern sem er.

Fréttamaðurinn Kaveh Solhekol segir þó að Sheikh Jassim frá Katar sé enn staðráðinn í að kaupa Man Utd. Hann horfði á úrslitaleikinn í deildabikarnum heima hjá sér í faðmi fjölskyldu sinnar. Hann er að bíða eftir svörum við tilboði sínu. Það hefur ekki heyrst frá Ratcliffe síðustu daga.

„Við viljum Glazer-fjölskylduna burt," söng stuðningsfólk Man Utd hástöfum síðasta sunnudag, líkt og oft áður. En mun það gerast á næstunni?

Sjá einnig:
Líklegastur til að eignast Man Utd en lítið er vitað um hann
Athugasemdir
banner