Theodór Elmar Bjarnason lék lokaleik sinn á ferlinum á laugardag þegar KR vann 7-0 stórsigur á HK. Elmar átti góðan leik, sýndi nokkrum sinnum lipra takta og skemmti áhorfendum.
Hann er 37 ára og lék lengst af sem miðjumaður á sínum ferli. Hann snýr sér nú að þjálfun og verður aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá KR á næsta tímabili. Elmar ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn gegn HK.
Hann er 37 ára og lék lengst af sem miðjumaður á sínum ferli. Hann snýr sér nú að þjálfun og verður aðstoðarmaður Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá KR á næsta tímabili. Elmar ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn gegn HK.
„Þetta starf og að vinna með Óskari sem bauðst þá gat ég ekki annað en tekið því, byrja minn feril sem þjálfari," sagði Elmar.
Honum líst mjög vel á að vinna með Óskari.
„Það er bara frábært, við vitum það alveg að þetta er einn besti þjálfari sem Ísland hefur alið af sér, er 'all in' og þannig vil ég líka gera hlutina. Ég held að við eigum eftir að fúnkera vel saman og að ég eigi eftir að læra alveg helling."
Elmar náði að spila tæplega hálft tímabil undir stjórn Óskars.
„Það var heldur betur gaman að ná nokkrum leikjum undir hans stjórn, ég naut mín þvílíkt. Pínu synd að við höfum ekki náð að vinna saman fyrr þegar maður var aðeins léttari á sér og aðeins yngri, það hefði verið geðveikt."
„Ég veit að úrslitin hafa ekki verið frábær en mér finnst ákveðinn sigur fyrir KR hvað við erum búnir að koma mörgum ungum, fáránlega efnilegum strákum, inn í hópinn. Það er búið að blóðga þá alla, eru að fá mínútur. Þeir verða tilbúnari í næsta tímabil, mér finnst það frábært og ákveðinn sigur þótt við vildum að sjálfsögðu vera ofar í töflunni. Maður verður að taka litlu sigrana líka."
Elmar er uppalinn KR-ingur og er ánægður með að hafa klárað ferilinn með KR.
„Það er alveg frábært, ég gæti ekki verið stoltari, mér þykir ótrúlega vænt um hvern einasta strák í þessu liði. Maður verður bara hálfklökkur að tala um það, mér finnst geggjað að enda þetta eins og við gerðum og skilja við klúbbinn á þeim stað sem hann er. Mér finnst við með geðveikan grunn fyrir næsta tímabil, himininn er okkar 'limit' og ég held að við munum mæta sterkir til leiks," sagði Elmar.
Athugasemdir