Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fös 29. janúar 2016 15:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kínverski boltinn rúllar á ógnarhraða
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Fótboltafár er að myndast í Kína.
Fótboltafár er að myndast í Kína.
Mynd: Getty Images
Scolari gerir það gott í Kína.
Scolari gerir það gott í Kína.
Mynd: Getty Images
Í Kína má í dag finna stærstu fótbolta-akademíu heims.
Í Kína má í dag finna stærstu fótbolta-akademíu heims.
Mynd: Getty Images
Guangzhou Evergrande fagnar sigri í Asíubikarnum, Meistaradeild Asíu.
Guangzhou Evergrande fagnar sigri í Asíubikarnum, Meistaradeild Asíu.
Mynd: Getty Images
Evrópsk félagslið eru mjög vinsæl í landinu.
Evrópsk félagslið eru mjög vinsæl í landinu.
Mynd: Getty Images
Peningurinn flæðir um kínversku deildina sem vex á miklum hraða. Ekki sér fyrir endann á þessari þróun og margir sem spá því að deildin eigi bara eftir að fara í eina átt og verða ógnarstór.

Fjármagnið sem er komið í kínverska boltann er svo mikið að sum félög eru nánast með botnlausan brunn af peningum. Jiangsu Suning hefur selt Viðar Örn Kjartansson til Malmö á 46 milljónir íslenskra króna, ári eftir að hafa keypt hann á 460 milljónir.

Ekki er það vegna þess að verðmæti Viðars hefur eitthvað minnkað. Menn hafa bara svo mikið fé milli handanna að þeir geta leikið sér án þess að högg sjáist á vatni.

Kína er næst stærsta hagkerfi heims en hefur aldrei verið þekkt fyrir fótboltaafrek. Reyndar hefur landslið þjóðarinnar aðeins einu sinni komist í lokakeppni HM. En skyndilega hefur mikill áhugi myndast og styttist í að við getum notað orðið fótboltafár.

Allir eru búnir að hoppa á vagninn. Meira að segja forsetinn Xi Jinping hefur lýst yfir aðdáun sinni á vinsælustu íþrótt heims. Hann heldur með Manchester United. Áhorfendatölur eru á uppleið, launin eru á mikilli uppleið og fyrirtæki í Kína eru í auknum mæli farin að setja pening í fótboltann.

Þekkt nöfn flykkjast í deildina og gerir því eftirsóknarverðara fyrir önnur þekkt nöfn að fara sömu leið. Fjárhagsstyrkur og fólksfjöldinn í Kína gerir það að verkum að fótboltinn er orðinn risastórt viðskiptaferlíki í landinu.

Sambataktar í Kína
Brasilíumenn hafa oftast allra unnið HM í fótbolta. Það vantar ekki brasilískar tengingar í kínversku deildina. Ramires er á leiðinni frá Chelsea til Jiangsu Suning og Paulinho, fyrrum leikmaður Tottenham, spilar með Guangzhou Evergrande. Robinho lék einmitt með liðinu í fyrra en þjálfari þess er Luiz Felipe Scolari sem gerði Brasilíu að heimsmeisturum 2002.

Síðustu þrír þjálfarar Guangzhou Evergrande hafa allir orðið heimsmeistarar því á undan Scolari héldu Marcello Lippi og síðar Fabio Cannavaro um stjórnartaumana.

Svíinn síkáti, glaumgosinn Sven-Göran Eriksson, er þjálfari Shanghai SIPG en í sínum röðum hefur hann einn launahæsta leikmann heims, Asamoah Gyan. Ronaldo og Messi eru aðeins tveir af fáum leikmönnum sem eru á hærri launum en Gyan.

„Meðan ég hef verið hér hefur fótboltinn stækkað gríðarlega, mun meira en ég hefði getað ímyndað mér. Á næstu árum tel ég að hann geti orðið gríðarstór," segir Eriksson sem hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að fá Wayne Rooney til Kína. Það kæmi manni ekki á óvart að sjá Rooney spila í kínversku deildinni bráðlega.

Herferð gegn veðmálasvindli stór hluti af uppganginum
Kínverska Ofurdeildin, eins og hún er kölluð, var sett á laggirnar 2004 þegar yfirmenn knattspyrnusambands landsins ákváðu að breytinga væri þörf á deildarfyrirkomulaginu. Athyglisvert er að upphafið af vinsældum deildarinnar má rekja til herferðar kínverskra stjórnvalda.

Yfirvöld í Kína ákváðu að skera upp herör gegn svindli og svínaríi. Veðmálaheimurinn var tekinn í gegn og hart tekið á hagræðingu úrslita og spillingu. Eitthvað sem var stórt vandamál í landinu. Þrír fyrrum formenn knattspyrnusambands landsins, Xie Yalong, Nan Yong og Yang Yimin voru handteknir.

Eftir þessa „hreingerningu" jókst áhugi almennings á deildinni greinilega árið 2011 og árið þar á eftir fóru hjólin að snúast. Didier Drogba og Nicolas Anelka voru meðal þekktra nafna sem keypt voru í deildina.

Uppruni fótboltans er í Kína
Smá útúrdúr, en samt ekki: Það er umdeilanlegt hver fæðingarstaður fótboltans er. Í núverandi mynd er oft talað um England í þessari umræðu en sögufræðingar segja að uppruni leiksins eigi rætur í Kína. Fyrir 2.000 árum var til leikur í Kína sem kallaðist sparkbolti eða „cuju".

Hægt var að spila leikinn í mismunandi útgáfum. Ein útgáfan snérist um að halda boltanum uppi í loftinu sem lengst en önnur var sú að tvö lið áttust við og reyndu að koma boltanum í mark sem var tíu metra hátt. Keppendurnir voru oftast ungir karlmenn úr efnamiklum fjölskyldum.

Liðið sem vann var verðlaunað með trommuslætti, fánum og víni. Leikurinn snérist á engan hátt um peninga eða frægð og frama heldur var aðeins notaður sem dægrastytting.

Kína vill njóta farsældar í öllu
Fótboltabyltingin í Kína nær langt út fyrir landið. Horfum til Evrópu. Kínverskir fjárfestar hafa á undanförnum árum verið að eignast hlutabréf í fótboltafélögum á Englandi, Spáni Frakklandi, Hollandi og Tékklandi.

Ástæðan er að mörgu leyti þrjá þjóðarinnar til að gera sig gildandi í alþjóðlegum fótbolta, þróa félagsliðafótboltann í Kína og landslið þjóðarinnar, auka áhuga kínverskra stuðningsmanna og nota fótboltann til að auglýsa sig. Kína vill vera stórt og njóta farsældar í öllu sem þjóðin gerir og hingað til hefur fótboltinn setið á hakanum. Nú skal breyta því.

Kínverskir fjárfestar vilja fjölga leikmönnum frá landinu í Evrópufótboltanum og þeir vilja að hlutirnir gerist hratt.

Kínverskt lampafyrirtæki er orðið helsti styrktaraðili portúgölsku B-deildarinnar. Frá og með næsta tímabili heitir deildin Ledman deildin. Fyrirtækið hafði uppi hugmyndir um að senda tíu kínverska leikmenn til Portúgal og planta þeim í efstu liðin. Þessi brjálaða hugmynd fékk ekki góðar viðtökur í Portúgal og ákveðið var frá að hverfa.

Hvar endar þetta? Mun Kína einhvern tímann berjast um heimsmeistaratitilinn? Verður kínverski boltinn kominn á Stöð 2 Sport eftir nokkur ár? Verða næstu Messi og Ronaldo að spila í kínversku deildinni? Eða er þetta bara risablaðra sem springur einn daginn? Spurningarnar eru stórar og margar.
Athugasemdir
banner
banner
banner