
Ólafur Örn Ásgeirsson fékk tækifæri í marki HK eftir að Arnar Freyr meiddist í upphafi tímabils. Hann greip tækifærið og var einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Ólafur var meðal annars á bekknum í liði ársins hér á Fótbolti.net, þrátt fyrir að hafa ekki spilað allt mótið.
Sandor Matus, markmannsþjálfari HK, hrósaði Ólafi í hástert er Fótbolti.net ræddi við hann um markvörðinn efnilega.
Ólafur er oft kallaður Óli Neuer af stuðningsmönnum HK og segir Sandor það viðurnefni ekki vera gripið úr lausu lofti.
„Ég hef þekkt hann frá því að ég kom í HK árið 2018, þá var hann á yngra ári í 3. flokki. Við vissum að hann væri efni, hann átti hæðina og hann var góður í fótunum.“
„Á endanum kennir maður þessum krökkum allar hreyfingar, hvernig maður á að skutla sér og þess háttar, en allir enda með sínar hreyfingar. En hann minnir mann stundum á Neuer. Það er ekki leiðum að líkjast,“ segir Sandor léttur.
Dýrmæt reynsla í 2. deild
Ólafur er fæddur árið 2003 en hann hefur farið á lán frá HK í 2. deild undanfarin tvö ár. Þar sem hann fór í bæði skiptin upp um deild, fyrst með ÍR og svo Völsungi.
Síðustu tvö ár létum við hann fara út á lán í 2. deild, bæði hjá ÍR og Völsungi. Það var mjög dýrmætt, sérstaklega síðasta tímabil á Húsavík. Þá fékk ég viðbrögð frá Húsvíkingum sem sögðu mér að hann ætti stórt hlutverk í því að Völsungur fór upp. Hann lærði mikið, gerði mikilvæg mistök sem er ekki hægt að þjálfa.“
„Nú fékk hann tækifærið eftir að Arnar meiddist tvisvar í upphafi sumars. Hann kom inn í markið í gegn Fylki og tók sex, sjö fyrirgjafir. Við vorum 2-1 yfir undir mikilli pressu og hann kom út úr markinu eins og kóngur. Greip allar fyrirgjafir, þetta eru hæfileikar sem margir íslenskir markmenn eru ekki með.“
Arnar hjálpað Ólafi mikið
Arnar Freyr Ólafsson stóð í marki um níu ára skeið, en Sandor segir hann hafa hjálpað Ólafi mikið, ekki síst líkamlega.
„Arnar meiddist í upphafi tímabils og við héldum að þetta væri bara lítið, þurfti bara að fara út af. Síðan meiðist hann aftur og þurfti að taka sér lengri pásu. Síðan kemur leikur eftir leik sem Óli stendur sig mjög vel. Mér fannst ekki sanngjarnt að eftir sex, sjö leiki að segja við Óla að Arnar væri kominn aftur.“
„Síðan koma þessi KR skipti. Mér finnst Arnar úrvalsdeildarmarkmaður og hann mun vonandi hjálpa þeim í að halda sér uppi í deildinni. „Óli hefur lært mikið af Arnari. Sérstaklega líkamlega, Óli hefur séð Arnar sem var alltaf í ræktinni og tekið hann sér til fyrirmyndar og byggt upp sjálfan sig,“ segir Sandor að lokum.