Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 30. október 2024 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sérstakt að mæta bróður sínum í efstu deild - „Gæti orðið helvíti erfitt fyrir mömmu"
Maggi að taka viðtal við Anton á landsliðsæfingu 2016.
Maggi að taka viðtal við Anton á landsliðsæfingu 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hanna í grænu með Antonsson með sér.
Hanna í grænu með Antonsson með sér.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á næsta tímabili munu bræðurnir Anton Ari og Magnús Már mætast í Bestu deildinni. Magnús er þjálfari Aftureldingar sem er uppeldisfélag þeirra bræðra og Anton Ari er markvörður Íslandsmeistaranna í Breiðabliki. Karlalið Aftureldingar mun næsta sumar spila í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni.

Anton Ari ræddi við Fótbolta.net í gær og hann var spurður út í Aftureldingu og bróður sinn.

„Það verður bara ótrúlega skemmtilegt að mæta Magga og sérstakt líka. Þó að hann væri að þjálfa eitthvað annað lið en Aftureldingu þá væri þetta pottþétt sérstakt, en extra spes að þetta sé Eldingin. Það verður bara stuð."

„Ég hef mestar áhyggjur af mömmu, hvernig þetta verður fyrir hana, hverjum hún á að halda með. Ef bæði lið verða kannski í einhverri baráttu og eru að mætast seint á tímabilinu, það gæti orðið helvíti erfitt fyrir hana."

„Þetta verður bara stuð og snilld að Afturelding sé komin upp í efstu deild. Liðið hefði átt það fyllilega skilið í fyrra og átti það ennþá meira skilið í ár. Þetta er bara gleðiefni."


Hanna Símonardóttir er móðir þeirra bræðra, hún er þekkt fyrir að styðja vel við bakið á strákunum sínum. Verður hún ekki mætt í tvískiptri treyju þegar bræðurnir mætast?

„Jú, ætli hún geri það ekki. Þekkjandi hana rétt þá er hún örugglega búin að græja sér eitthvað svoleiðis."

Hanna var sjálf í viðtali við Stöð 2 í gær þar sem hún sagði frá því að hún vonaðist eftir að Afturelding og Breiðablik myndu vinna alla sína leiki en að innbyrðisleikirnir færu, allir þrír, 0-0.
Athugasemdir
banner