Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fös 05. júní 2015 15:49
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Haukur Ingi: Milljón dollara spurningin
Haukur Ingi Guðnason, nýr þjálfari Keflavíkur.
Haukur Ingi Guðnason, nýr þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur Ingi með Kristjáni Guðmundssyni á sínum tíma.
Haukur Ingi með Kristjáni Guðmundssyni á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Fyrsti leikur Keflavíkur undir stjórn nýrra þjálfara er á sunnudag.
Fyrsti leikur Keflavíkur undir stjórn nýrra þjálfara er á sunnudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson eru teknir við þjálfun Keflavíkur af Kristjáni Guðmundssyni sem var látinn taka pokann sinn í gær. Keflvíkingar eru aðeins með eitt stig í Pepsi-deildinni og féllu úr bikarnum með 0-5 tapi gegn KR.

„Aðdragandinn var alveg ótrúlega skammur. Þetta var spurning um að hrökkva eða stökkva," sagði Haukur Ingi þegar Fótbolti.net heyrði í honum rétt áðan.

„Ég var spurður að því í gærkvöldi hvort ég hefði mögulega áhuga á þessu og í morgun heyri ég í fyrsta sinn frá knattspyrnudeildinni sjálfri. Það var keyrt á þetta með skömmum fyrirvara og þegar á hólminn var komið er þetta ótrúlega spennandi tækifæri, að fá að taka við stjórnartaumunum hjá uppeldisklúbbnum með Jóhanni vini mínum."

Erfitt að þurfa að vinna 6-5
Fyrsti leikur þeirra við stjórnvölinn verður strax á sunnudaginn, gríðarlega mikilvægur botnbaráttuslagur við ÍBV.

„Þetta er skemmtileg áskorun og það er vissulega stutt í næsta leik. Sá leikur gefur jafnmörg stig og aðrir leiki, deildin mun ekki standa eða falla með þessum tiltekna leik. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við munum fara í þann leik með það sem markmið að ná í sem flest stig. Við höfum núna tvo sólarhringa til að undirbúa liðið fyrir þann leik eins og best verður á kosið."

En hvað er það sem Haukur og Jóhann þurfa að breyta?

„Þetta er stóra milljón dollara spurningin. Ég þekki Kristján Guðmundsson ágætlega sem þjálfara og veit hversu fær hann er og hversu mikið hann hefur fram að færa. Stundum er það þannig að það skiptir ekki máli hversu fær þjálfarinn er, hlutirnir bara ganga ekki upp," segir Haukur.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef Kristján hefði vitað nákvæmlega hvað væri að þá væri hann búinn að laga það. Við erum búnir að funda og ræða um hvað þurfi til að hrista þetta upp og það er engin augljós leið, nema að við verðum að reyna að koma í veg fyrir að liðið fái svona mörg mörk á sig. Það er mjög erfitt að þurfa að vinna leiki 6-5. Maður þarf að komast inn í þetta og sjá hvaða áherslur þurfi að koma með."

Auðvelt að þjálfa besta liðið
Telur hann að stór hluti sé hugarfarsvandamál og skortur á sjálfstrausti?

„Kannski að einhverju leyti, við þurfum líka að passa okkur á að detta ekki í þá holu að ætla lélegum árangri bara slíkt. Sem dæmi skiptir ekki máli hvað þú ert með gott hugarfar ef þú dekkar ekki inni í teig. Þetta er örugglega sittlítið af hvoru og í sumum tilfellum er það þannig að það er nóg að umhverfið breytist. Það gefur auga leið að þegar illa gengur eru menn ekki hoppandi glaðir svo það þarf örugglega að létta lundu leikmanna," segir Haukur sem var aðstoðarþjálfari meistaraflokks Fylkis í fyrra.

„Ég held að það sé auðvelt að vera þjálfarinn í besta liðinu. Það er miklu meiri áskorun að vera í þeirri stöðu að þurfa að feta upp einhverja brekku. Ég bý að góðu búi með því að hafa verið aðstoðarþjálfari Ása (Ásmundar Arnarssonar) í þrjú ár og ég held að mjög margir leikmenn haldi að þeir geti stokkið fullbúnir í þjálfarastöðuna þegar þeir ljúka ferlinum. Það er mismunandi hvernig það gengur en að hafa fengið að vera hinumegin við borðið þennan tíma og sjá hvernig þjálfaraheimurinn gengur sé reynsla sem mun klárlega nýtast."

Til að taka við þessu starfi þurfti Haukur að segja skilið við starf sitt sem yfirþjálfari yngri flokka Fylkis í Árbæ.

„Ég er þakklátur þeim mönnum sem ég hef verið að vinna með í uppbyggingu barna- og unglingastarfsins. Ég hef átt mjög gott samstarf með þeim og ég er þakklátur þeim að hafa sýnt mér skilning þegar ég vildi leita á þessi mið," segir Haukur Ingi Guðnason.
Athugasemdir
banner
banner
banner