Þakkar öllum Íslendingum fyrir stuðninginn
Abel Dhaira, markvörður ÍBV, greindist á dögunum með krabbamein í kviðarholi. Abel hóf í dag lyfjameðferð á Landspítalanum en hann er bjartsýnn á að ná fullri heilsu á nýjan leik.
„Ég byrja lyfjameðferðina eftir klukkutíma og ég er ánægður," sagði Abel við Fótbolta.net á Landspítalanum í dag.
„Ég vona að ég labbi héðan út og verði í lagi. Ég trúi því að ég verði í lagi. Ég bið til Guðs. Ég veit að starfsfólkið er gott í sínu starfi og ég hef trú á að ég muni læknast. Ég þarf að berjast og biðja að lyfin virki vel og hafi ekki mikil áhrif á mig. Ég vona það besta."
Þakklátur ÍBV
Abel greindist með krabbameinið í heimalandi sínu Úganda á síðasta ári. Talsverðan tíma tók þó að greina veikindin eins og Abel fer yfir í myndbandinu hér að ofan. Eftir að veikindin komu í ljós þá ákvað ÍBV að koma Abel til Íslands og undir læknishendur hér á landi.
„Óskar (Örn Ólafsson, formaður) og Heimir (Hallgrímsson) og stjórnarmenn hafa verið svo hjáplegir. Bróðir minn og systir mín voru í sambandi við félagið og þeir sögðu að ég yrði að koma hingað. Það var svo gott."
„Það var erfitt fyrir fjölskylduna mína að ég færi aftur hingað en ég sagði þeim að það væri mun betra. Flest keyptu hugmyndina strax. Mamma mín var hrædd og spurði hverjum ég yrði með en ég sagði henni að það yrði passað upp á mig. Hún samþykkti þetta síðan."
„ÍBV hefur stutt við bakið á mér og barist fyrir mig. Í desember, þegar ég var í Úganda, þá hjálpaði félagið mér líka. Ég fékk launin mín og ég gat notað þau til að borga reikningana, sem voru mjög dýrir. Ég þakka ÍBV kærlega fyrir og líka fyrir fjársöfnunina."
„Ég get ekki þakkað nógu mikið fyrir mig"
Fjársöfnunin sem ÍBV stendur fyrir þessa dagana hefur gengið vel en fjölmargir aðilar hafa lagt hönd á plóg. Grindavík, Fram, Stjarnan, Dalvík/Reynir, Árborg, Keflavík og Leiknir F. hafa til að mynda öll lagt sektarsjóði sina í fjársöfnunina. Abel segir erfitt að lýsa því hversu ótrúlega þakklátur hann er.
„Ég vil þakka öllum frá dýpstu hjartarótum. Ég er svo ánægður. Ég get ekki lýst því hvernig þetta er. Þetta er ótrúlegt. Allir eru jákvæðir og ég fæ styrk til að berjast við þetta. Ég er ánægður og vil þakka öllum fyrir."
„Það er fólk sem ég þekki ekki sem er að leggja sitt að mörkum. Ég veit ekki nöfnin á þeim og ég fæ aldrei að hitta þetta fólk. Það eina sem ég get gert er að biðja fyrir þeim. Ég bið fyrir því að Guð passi upp á þau og hjálpi þeim að upplifa drauma sína. Ég bið fyrir því að Guð opni dyrnar fyrir þeim og að þau nái bestu markmiðum sínum. Ég mun biðja fyrir þeim. Það er það eina sem ég get sagt."
„Það er blessun að vera á Íslandi. Ég þakka Guði fyrir. Ég hef séð áður að fólkið hér er ótrúlegt og þetta er alltof mikið fyrir mig. Ég get ekki þakkað nógu mikið fyrir mig."
„Ég vil þakka öllum Íslendingum. Ég vil þakka félaginu fyrir, stjórnarmeðlimunum, læknunum og allir sem eru að leggja sig fram. Ég vil þakka öllum fyrirtækjunum og fólkinu sem hefur hjálpað til. Ég vil þakka síma fyrirtækinu sem er að hjálpa með söfnunina (Vodafone), ég vil þakka öllum í Vestmannaeyjum fyrir, öllum í fótboltasamfélaginu, knattspyrnusambandinu, öllu íþróttafólki og öllum sem elska leikinn. Ég sendi þeim bestu kveðjur. Ég þakka öllum á Íslandi fyrir stuðninginn. Ég þakka fyrir hlýjar hugsanir og fyrir stuðninginn og ég vil að þið séuð blessuð. Ég mun aldrei gleyma ykkur og þið verðið alltaf í hjarta mínu."
Móðir Abel kemur til Íslands
Stuðningurinn við Abel kemur ekki einungis í gegnu fjársöfnunina sjálfa því að útgerðarmaður úr Eyjum hefur ákveðið að borga far undir móður hans til Íslands. Hún ætti að koma til landsins þegar hún fær vegabréf.
„Ég hitti mann sem ég þekkti ekki en hann er kallaður Beddi. Hann sagðist ætla að kaupa miða fyrir móður mína til að hún geti komið hingað. Ég þekki hann ekki en hann sagðist þekkja mig. Þegar ég verð betri, vonandi eftir þessa lyfja meðferð, þá verð ég að þakka honum betur fyrir en ég vil þakka honum frá dýpstu hjartarótum," sagði Abel.
Fjársöfnunin og viðbrögð ÍBV við veikindunum hafa vakið athygli í Úganda en Abel hefur lengi verið viðloðandi landsliðið þar í landi.
„Fjöskylda mín í Úganda er mjög þakklát. Knattspyrnusambandið í Úganda er hissa á þessu og þetta hefur verið út um allt í fréttunum heima. Allar sjónvarpsstöðvarnar tala um hversu góðir hjá ÍBV menn eru. Ég segi þeim heima að ÍBV og fólkið á Íslandi sé ótrúlegt."
Fjársöfnun fyrir Abel
ÍBV er með fjársöfnun fyrir Abel. Þeir sem vilja taka þátt í söfnuninni geta hringt í neðangreind númer eða lagt beint inn á söfnunarreikning 582-14-602628 kt. 680197-2029.
9071010 – 1000kr
9071020 – 2000kr
9071030 – 3000kr
Athugasemdir