Halldór Hermann Jónsson leikmaður Fram var að vonum sáttur eftir 2-1 sigur liðsins gegn Keflavík í Pepsi deild karla í kvöld.
„Það er létt yfir okkur. Það er búið að vera létt yfir okkur síðustu leiki, okkur líður rosalega vel. Við erum bara að spila okkar bolta og engin pressa þannig að þetta er bara mjög skemmtilegt þessa tíðina,“ sagði Halldór við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Ég er mjög sáttur við spilamennskuna. Við duttum aðeins til baka þegar við fengum á okkur markið, en barátta um allan völl, við vorum að búa til flottar sóknir og skora tvö mörk, ég er mjög sáttur við það.“
Halldór Hermann skoraði glæsilegt mark með skoti af löngu færi en þegar hann var beðinn um að lýsa markinu var fátt um svör.
„Ég er hrikalega lélegur í að lýsa mörkunum mínum. Ég held að ég hafi bara skotið á markið og ég held að hann hafi snert varnarmann. Svo misreiknaði markmaðurinn bara boltann en ég veit þetta ekki alveg, þú verður bara að spyrja einhvern annan eða kíkja á þetta í sjónvarpinu,“ sagði Halldór léttur.
Viðtalið í heild sinni má sjá í myndbandinu hér að ofan.