Freyr Alexandersson fór ekki vel af stað sem þjálfari Brann í Noregi. Lið hans tapaði 3-0 gegn Fredrikstad í fyrsta deildarleiknum.
Það er svo sannarlega hægt að segja að það sé pressa í Bergen og hafa fjölmiðlarnir í Noregi ekki tekið vel í þetta tap hjá Brann, sem endaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Það er svo sannarlega hægt að segja að það sé pressa í Bergen og hafa fjölmiðlarnir í Noregi ekki tekið vel í þetta tap hjá Brann, sem endaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Á Nettavisen er fjallað um það að Erik Huseklepp geti fljótlega orðið þjálfari Brann ef næstu leikir fara illa. Hann bíður spenntur á hliðarlínunni.
Huseklepp er fæddur í Bergen og er sannkölluð bæjarhetja. Hann lýsti yfir áhuga á að taka við sem aðalþjálfari hjá Brann áður en Freyr var ráðinn en hann þjálfaði liðið til bráðabirgða eftir að Eirik Horneland lét af störfum til að taka við St. Etienne í Frakklandi.
Huseklepp lék lengi með Brann og hafði verið í þjálfarateymi félagsins frá 2022, en hann hætti eftir að Freyr tók við fyrir nokkrum mánuðum.
Fram kemur á Nettavisen að Huseklepp hafi fengið fyrirspurnir um þjálfarastörf en hann hafi ekki hlustað á neitt enn sem komið er. Hann starfar í dag sem íþróttakennari í skóla í Bergen og er að bíða.
„Tími er það síðasta sem þú færð í Bergen, sérstaklega á þessum tíma árs," segir í greininni og þar segir einnig að allt fari í háaloft ef Brann stendur ekki undir væntingum. Brann var nálægt titlinum í fyrra og það dugar ekkert minna í ár.
„Eftir einn leik er Freyr Alexandersson nú þegar farinn að eiga erfitt uppdráttar," segir í þessari grein sem má lesa hérna og Huseklepp bíður á hliðarlínunni.
Næsti leikur Brann er gegn Tromsö á heimavelli næstkomandi sunnudag og vonandi nær Freyr í góð úrslit þar.
Athugasemdir