„Það væru gríðarleg vonbrigði ef að það yrði niðurstaðan," segir Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, um spá Fótbolta.net fyrir komandi keppnistímabil.
Víkingum er spáð öðru sæti deildarinnar í sérstakri spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
Víkingum er spáð öðru sæti deildarinnar í sérstakri spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
„En Breiðablik eru ríkjandi Íslandsmeistarar og með hörkulið þannig spáin ykkar er svo sem eðlileg," segir Sölvi.
Undirbúningstímabil Víkinga var sérstakt en liðið spilaði í Evrópukeppni fram í febrúar.
„Ég var gríðarlega ánægður með Panathinaikos leikina, við bjuggum klárlega til efnivið í leikjunum tveimur til þess að fara áfram úr einvíginu en það datt því miður með þeim í þetta skiptið. Eftir þá leiki byrjaði í raun undirbúningur okkar fyrir deildina því leikirnir fyrir Panathinaikos voru einungis hugsaðir til undirbúnings fyrir þá leiki. Við höfum átt flotta frammistöðu sem og úrslit gegn FH, Grindavík, Keflavík og KR í og förum fullir sjálfstrausts inn í mótið," segir þjálfari Víkinga og bætir við að stemningin í hópnum sé góð. Víkingar fóru á dögunum með sigur af hólmi í BOSE mótinu.
„Stemningin er gríðarlega góð. Vorum lengi saman í Grikklandi og Finnlandi og svo fórum við í æfingaferð til Kanaríeyja. Svona ferðir þétta hópinn saman og hjálpa nýju leikmönnunum okkar að aðlagast. Góð frammistaða gegn Panathinaikos og æfingaleikirnir okkar gefa síðan klefanum gott boost og ekki skemmir að vera kominn með glænýjan BOSE hátalara."
En hvernig horfirðu til baka á síðasta tímabil?
„Síðasta tímabil var gríðarlegur rússíbani. Við vorum tveimur úrslitaleikjum frá því að eiga óumdeilanlega besta tímabil sem íslenskt félagslið hefur átt. Því miður náðum við ekki í nægilega góða frammistöðu í þeim leikjum til þess að verðskulda sigra en tímabilið okkar í Evrópukeppni var stórkostlegt og sýndi hversu langt við erum komnir. Gríðarlega margt sem við lærðum, sérstaklega þegar álagið var sem mest sem við munum taka með okkur í komandi tímabil."
Sölvi tók við sem aðalþjálfari Víkinga í vetur eftir að Arnar Gunnlaugsson var ráðinn landsliðsþjálfari. Hvernig hefur gengið að aðlgast nýju starfi?
„Mér var svo sannarlega hent út í djúpu laugina með enga björgunarkút. Ég held að það hafi verið jákvætt að fá Panathinaikos leikina beint í andlitið því það var enginn tími í að hugsa um neitt annað en að undirbúa þá leiki. Ég er með gríðarlega sterkt þjálfarateymi með mér og góðan stuðning frá öllum í Víking sem hafa hjálpað mér að aðlagast sem aðalþjálfari," segir Sölvi.
„Ég er ótrúlega heppinn að fá mitt fyrsta aðalþjálfarastarf með þennan hóp. Ekki nóg með það að við gætum stillt upp tveimur byrjunarliðum sem gætu barist um Íslandsmeistaratitilinn heldur eru þetta allt frábærir karakterar. Samkeppnin er mikil sem er nauðsynlegt fyrir lið sem vilja keppast á öllum vígstöðvum. Ég er mjög sáttur við hópinn eins og hann er í dag en við erum alltaf með augun opinn fyrir góðum leikmönnum."
Það þarf ekki einu sinni að ræða hver markmiðin eru, þau eru augljós.
„Standardinn í félaginu í dag er að það þarf ekki einu sinni að ræða hver markmiðin eru. Krafan er sett á báða titlana heima og komast aftur í úrslitakeppni Evrópu. Við munum leggja allt í sölurnar til þess að ná þessum árangri," segir Sölvi og að lokum bætti hann við skilaboðum til stuðningsmanna:
„Stuðningurinn ykkar í fyrra var ómetanlegur og eru hann stór hluti af velgegni okkar síðstu ár - það sást best í fyrra þegar við lentum 2-0 undir á móti Val nýkomnir heim úr Evrópu í þéttu leikjarprógrammi og ekki með mestu orkuna í löppunum, þið hættuð ekki að hvetja okkur áfram og gáfuð liðinu þennan auka kraft til að snúa leiknum við. Við getum ekki beðið eftir því að byrja og hlökkum til að gefa ykkur tilefni til þess að fagna og bæta við góðum minningum í safnið!"
Athugasemdir