Þurftu að byrja vel
„Það sem skóp þennan sigur var vinnan sem menn lögðu í leikinn. Fyrsta skrefið var sterkt, menn voru kraftmiklir bæði varnar- og sóknarlega. Skagaliðið er gott, það er vel mannað og komu til leiks með mikið sjálfstraust eftir ágætis gengi í byrjun móts og sterkan sigur á móti Víkingi. Það var viðbúið að við þyrfumt að byrja vel til að fá eitthvað úr þessum leik," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir sigur Breiðabliks á ÍA í Bestu deild karla í dag.
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 5 Breiðablik
Þrír af fjórum varamönnum Breiðabliks komu að marki í seinni hálfleik.
„Ég get ekki verið annað en mjög sáttur. Þeir sem komu inn á komu sterkir inn. Dagur Dan á frábæra innkomu, Anton Logi, Galdur, Omar og allir þessir strákar. Þeir sýna að við erum sterk liðsheild. Það er gott að vita til þess, margir leikir og oft stutt á milli leiki. Það mun reyna á hópana hjá liðunum og það sem þessir strákar sýndu í dag og hafa sýnt á æfingum er að þeir gera tilkall til fleiri mínútna. Það er auðvitað bara frábært að það sé samkeppni."
Breiðablik var með öflugan bekk í leiknum en auk þess voru tveir fyrrum atvinnumenn og Sölvi Snær Guðbjargarson utan hóps vegna meiðsla. Hvernig verður í sumar að halda öllum sáttum?
„Það verður ekkert mál held ég. Það er bara framundan sem sker úr hverjir spila hverju sinni. Ef menn standa sig vel í leikjum og standa sig vel á æfingum þá aukast líkurnar á því að þeir spili. Það fær enginn neitt ókeypis."
„Akkúrat í dag er Elfar [Freyr Helgason] að koma til baka eftir kviðslitsaðgerð - byrjaði að hjóla á mánudaginn, Mikkel [Qvist, sem var í fyrsta sinn á bekknum] er að koma til baka eftir tognun og Adam [Örn Arnarson] er líka að ná sér. Sölvi, það er kannski aðeins lengra í hann, hann er með beinmar í ökklanum og gæti verið frá í einhverjar vikur."
„Það er bara lúxusvandamál og hluti af því að reyna berjast á mörgum vígstöðvum. Við erum búnir að fara yfir þetta með hópnum, menn skilja þetta - það þarf stóran hóp til að halda út svona langt mót. Það hafa allir sitt hlutverk, sumir eru í stærra hlutverki á einhverjum tímapunkti og aðrir á öðrum. Þannig er það bara."
Viktor Karl Einarsson þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik. „Ég held að staðan á honum sé bara fín. Hann stífnaði aðeins upp, fann aðeins fyrir þessu í upphitun og ég vona að við höfum náð að búa þannig um hnútana að hann verði klár á miðvikudaginn."
Óskar tjáði sig í lok viðtals um stuðninginn úr stúkunni og um viðræður við Valgeir Valgeirsson.
Athugasemdir