Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mið 09. desember 2020 18:25
Elvar Geir Magnússon
Yfirlýsing landsliðsins: Jón Þór átti persónuleg samtöl um önnur mál en fótbolta
Jón Þór Hauksson, fyrrum landsliðsþjálfari kvenna.
Jón Þór Hauksson, fyrrum landsliðsþjálfari kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikmönnum finnst sorglegt að umfjöllun um framtíð Jóns Þórs sé farin að færast yfir í vangaveltur um áhrif leikmanna á niðurstöðu málsins," segir í yfirlýsingu frá kvennalandsliðinu sem Sara Björk Gunnarsdóttir birtir á Twitter.

Sara birti tvær yfirlýsingar, eina frá sér sjálfri og svo eina fyrir hönd landsliðsins.

„Eftir leik Íslands og Ungverjalands um daginn varð ljóst að við tryggðum okkur sæti á EM 2022. Við fögnuðum því enda virkilega ánægðar með að hafa náð okkar markmiðum. Sama kvöld átti sér stað óásættanleg hegðun Jóns Þórs aðalþjálfara liðsins gagnvart hluta leikmannahópsins. Þar átti hann persónuleg samtöl við leikmenn um önnur mál en fótbolta sem valdið hafa trúnaðarbresti milli hans og leikmanna liðsins," segir í yfirlýsingu liðsins.

Jón Þór Hauksson sagði upp sem landsliðsþjálfari kvenna í gær eftir að hafa farið yfir strikið í samræðum við leikmenn þegar hann var undir áhrifum áfengis.

„Í fjölmiðlum hafa komið fram vangaveltur um hvort Jón Þór hefði átt að halda áfram sem þjálfari eða ekki. Líkt og fyrr er það alltaf ákvörðun KSÍ hver gegnir starfi landsliðsþjálfara. Fréttaflutningur um að leikmenn gæfu ekki kost á sér í framtíðarverkefni landsliðsins ef Jón Þór yrði áfram í starfi er uppspuni. Slík umræða hefur aldrei átt sér stað innan leikmannahípsins og mótmælir hópurinn slíkum fréttafutningi harðlega"

„Leikmenn liðsins hafa ekkert með niðurstöðu málsins að gera. Þrátt fyrir persónulegar skoðanir leikmanna á þjálfara liðsins er það alfarið ákvörðun KSÍ hver gegnir starfi landsliðsþjálfara. Við berum fullt traust til KSÍ við úrlausn málsins."

„Við sem hópur, bæði leikmenn og allir þeir em hafa komið að þessu liði, höfum unnið hart að því að ná markmiðum okkar að komast á EM í Englandi 2022. Við erum ótrúlega stoltar að hafa náð því markmikið. Það eina sem við hugsum um núna er að undirbúa okkur sem allra best fyrir komandi keppni. Við erum mjög einbeittar í undirbúningi fyrir verkefnið og ætlum að gera landsmenn stolta af okkur í Englandi," segir í yfirlýsingunni.


Athugasemdir
banner
banner
banner