Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 11. nóvember 2024 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lineker minnkar við sig hjá BBC - Hættir eftir tvö ár
Mynd: Getty Images
Fótboltasérfræðingurinn Gary Lineker mun hætta sem þáttastjórnandi Match of the Day hjá BBC eftir þessa leiktíð.

The Sun greindi fyrst frá þessu og hafa fréttamenn frá BBC tekið undir fregnirnar. Búist er við opinberri tilkynningu frá breska ríkissjónvarpinu á morgun, þriðjudag.

Lineker mun starfa áfram hjá BBC en sinna smærri hlutverkum. Hann mun sjá um HM 2026 í Norður-Ameríku en talið er að það verði hans síðasta starf fyrir ríkissjónvarpið áður en hann leggur hljóðnemann á hilluna.

Lineker, sem er 63 ára gamall, er sem stendur launahæsti starfsmaður BBC af þeim sem tilkynna launin sín opinberlega - með meira en 1,3 milljónir punda í árslaun. Hann hefur verið þáttastjórnandi á Match of the Day í um 25 ár, eða frá því skömmu fyrir aldamót, eftir að hafa átt magnaðan feril sem atvinnumaður í fótbolta þar á undan.

Lineker viðurkenndi í viðtali fyrr í nóvember að hann væri byrjaður að finna fyrir hækkandi aldri og þyrfti að byrja að hægja á sér í starfinu.

Í fortíðinni hefur Lineker einnig starfað fyrir stórar sjónvarpsstöðvar á borð við NBC og BT Sport, auk þess að hafa stofnað gífurlega vinsæla hlaðvarpsveitu.
Athugasemdir
banner
banner