banner
   mán 12. október 2020 20:27
Sverrir Örn Einarsson
Félög í Lengjudeildinni senda leikmenn heim
Lengjudeildin
Vestri reiknar með því að senda erlenda leikmenn heim 19.október
Vestri reiknar með því að senda erlenda leikmenn heim 19.október
Mynd: Haukur Gunnarsson
Heimsfaraldur Covid-19 og þær aðstæður sem hefur skapast í þjóðfélaginu að undanförnu hafa ekki farið framhjá nokkrum manni. Knattspyrnan hefur ekki farið varhluta af þeim spjöllum sem veiran veldur á daglegu lífi og hefur öllu mótahaldi á vegum KSÍ verið aflýst til 20. október hið minnsta.

Ekki hefur þó enn komið til álita hjá stjórn KSÍ að aflýsa mótinu og nýta þar með reglugerð sem skrifuð var fyrir mót til þess að takast á við aðstæður sem þessar heldur miðar knattspyrnusambandið enn við það að hægt verði að ljúka mótinu fyrir 1. desember.

Félög í Lengjudeildinni fara ekki varhluta af ástandinu og eru Leiknir F., Vestri og Víkingur Ó. þegar búin eða eru að undirbúa að senda erlenda leikmenn heim og fastlega má reikna með því að fleiri félög muni bætast við eftir því sem teygist á tímabilinu.

Í samtölum fréttaritara við forráðamenn liðanna sem um ræðir er fjárhagsmál félaganna algengasta ástæðan en lengra tímabil þýðir auknar launagreiðslur fyrir félögin auk þess sem kostnaður vegna húsnæðismála leikmanna eykst.

„Eins og kom fram á Fótbolta.net í dag erum við nú þegar búnir að senda tvo erlenda leikmenn heim og óvíst hvernig það fer með aðra. En ég efast um að við höfum efni á að hafa alla hér ef mótið teygist mikið.“ sagði Brynjar Skúlason þjálfari Leiknis F. við fréttaritara í dag og bætti við:

„Ég reikna með að margir séu i svipaðri stöðu og við. Mönnum er reddað einhverri sumarvinnu og þegar hún er farin þurfa félögin að greiða þessum drengjum umsamin laun úr eigin vasa. Og ég efast um að margir klúbbar hafi gert ráð fyrir því í sinni fjárhagsáætlun.“

Vestri sem hefur innan sinna raða verið með fjölmarga erlenda leikmenn hefur sömuleiðis sent menn heim og sagði Samúel Samúelsson formaður knattspyrnudeildar Vestra í samtali við Fótbolta.net:

„Það hafa tveir leikmenn farið til síns heima eftir að deildin fór á 'hold'. Restin fer 19. október eins og til stóð.“

Lokaumferð Lengjudeildarinnar átti að fara fram um komandi helgi en alls er óvíst hvenær og hreinlega hvort hún fer fram en líkt og áður kemur fram miðar KSÍ við að mótum verði lokið fyrir 1. desember næstkomandi en Guðni Bergsson sagði þó í viðtali á RÚV í dag að ekki kæmi til greina að færa þá leiki sem eftir eru innanhúss.

Sjá einnig
Kemur ekki til greina að flytja allt Íslandsmótið inn í hallirnar
Tveir Spánverjar yfirgefa Fáskrúðsfirðinga
Enn stefnt að því að klára mótið - „Engin fullkomin lausn"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner