Yfirmenn tyrkneska fótboltans hafa sett allar deildir landsins í biðstöðu eftir að ráðist var á dómarann Halil Umut Meler eftir leik í úrvalsdeild landsins.
Faruk Koca forseti MKE Ankaragucu óð inn á völlinn og gaf dómaranum þungt hnefahögg eftir lokaflaut. Meler fékk svo fleiri högg á sig meðan hann lá í grasinu en Ankaragucu hafði fengið á sig jöfnunarmark þegar sjö mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma.
Faruk Koca forseti MKE Ankaragucu óð inn á völlinn og gaf dómaranum þungt hnefahögg eftir lokaflaut. Meler fékk svo fleiri högg á sig meðan hann lá í grasinu en Ankaragucu hafði fengið á sig jöfnunarmark þegar sjö mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma.
„Þetta er skammarlegt kvöld fyrir tyrkneskan fótbolta og allar deildir hafa verið stöðvaðar tafarlaust,“ segir Mehmet Buyukeksi forseti tyrkneska fótboltasambandsins.
Meler er einn besti dómari Tyrklands og starfar einnig á erlendum vettvangi fyrir UEFA og FIFA. Hann fékk aðhlynningu á sjúkrahúsi vegna blæðingar í kringum annað augað og kinnbeinsbrots. Hann verður útskrifaður í dag.
Forseti Tyrklands, Recep Erdogan, gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann fordæmir árásina á Meler og óskar honum skjóts bata. Erdogan segir að ofbeldi í íþróttum verði ekki liðið í landinu.
Athugasemdir