Sky í Þýskalandi greinir frá því að Borussia Dortmund sé ekki einungis að reyna að krækja í varnarmanninn Renato Veiga frá Chelsea, heldur einnig miðjumanninn Carney Chukwuemeka.
Chelsea er reiðubúið til að lána Chukwuemeka út en vill ekki að samningnum fylgi kaupmöguleiki. Þá vill félagið helst selja Veiga eða lána hann út með kaupmöguleika eða kaupskyldu.
Chelsea metur Chukwuemeka á 40 milljónir evra og Veiga á 30 milljónir og er talið að Dortmund sé áhugasamt um að festa kaup á þeim báðum. Þýska félagið er þó ekki tilbúið til að kaupa Veiga í janúar, heldur vill það fá hann á lánssamningi með kaupmöguleika.
Það hefur þegar verið greint frá því að Veiga er spenntur fyrir því að skipta yfir til Dortmund en ekki er víst að samkomulag náist á milli félagsliðanna.
Veiga vill spila sem miðvörður en Enzo Maresca vill frekar nota hann sem vinstri bakvörð og þess vegna vill Portúgalinn leita á ný mið. Veiga á þrjá A-landsleiki að baki fyrir sterkt A-landslið Portúgal þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall.
Chukwuemeka er jafnaldri Veiga og á 25 landsleiki að baki fyrir yngri lið Englands en á eftir að spila fyrir U21 liðið eða A-landsliðið.
Athugasemdir