Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 14. júlí 2021 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Held að þetta sé langbesta lið sem ég hef spilað á móti"
Úr leiknum í gær
Úr leiknum í gær
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var skemmtilegt en erfitt. Mér fannst við gera nokkuð vel, náðum að loka vel á þá og þeir voru ekki að fá mörg opin færi. Við vorum líka að ná að pressa á þá annað slagið, mér fannst það vera sterkt," sagði Birkir Heimisson, leikmaður Vals, aðspurður um leikinn gegn Dinamo Zagreb í gær.

Dinamo og Valur mættust í gær í seinni leik liðanna og leiddi króatíska liðið með einu marki eftir fyrri leikinn. Liðin voru að mætast í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Lestu um leikinn: Valur 0 - 2 Dinamo Zagreb

„Við þurftum að reyna sækja mörk á þá og fengum alveg nokkur fín færi en þurftum kannski aðeins meiri heppni og þá hefðum við tekið þá," sagði Birkir.

Gátuð þið Valsarar farið þokkalega sáttir af velli?

„Það er erfitt að fara sáttur af velli eftir tap. En miðað við hvernig við spiluðum, og við lögðum allt í þetta þá held ég að við höfum farið ágætlega sáttir af velli en samt svekktir að hafa tapað af því við fengum sénsa."

Er þetta besta lið sem þú hefur spilað á móti?

„Já, ég held að þetta sé langbesta lið sem ég hef spilað á móti hingað til á ferlinum. Mér finnst þeir spila rólega og setja svo í gírinn þá eru allir að taka góð hlaup. Það er erfitt að loka á þá en mér fannst við samt gera ágætlega. Þeir eru góðir fótbolta, vita alltaf hvar samherjarnir eru og eru með geggjaða tækni. Mér fannst við samt setja á að setja tvö mörk á þá."

„Þetta er ekki bara einhver einn sem er góður, þeir eru flestallir fínir,"
sagði Birkir um leikinn í gær.

Valur er úr leik í Meistaradeildinni en í kvöld kemur í ljós hvort liðið mætir Bodö/Glimt eða Legia Varsjá í 2. umferð Sambandsdeildarinnar. Liðin sem tapa í forkeppni Meistaradeildarinnar færast yfir í Sambandsdeildina. Valur fær tapliðið úr viðureign Bodö/Glimt og Legia í næsta Evrópuverkefni sínu.

Birkir var valinn besti leikmaður Vals af Arnari Daða Arnarssyni sem textalýsti leiknum hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner