banner
   mið 15. febrúar 2023 12:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Seinasta árið var örugglega erfiðasta árið mitt á ferlinum"
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Með fyrirliðabandið í landsleik.
Með fyrirliðabandið í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnhildur á að baki 96 A-landsleiki fyrir Ísland.
Gunnhildur á að baki 96 A-landsleiki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er komin heim eftir um tíu ár í atvinnumennsku. Hún samdi við Stjörnuna fyrir nokkrum vikum síðan og mun enda ferilinn hér heima.

Gunnhildur spilaði í Bandaríkjunum með Utah Royals og svo með Orlando Pride frá 2021. Á meðan hún lék í Orlando þá komu upp leiðinleg mál utan vallar. Amanda Cromwell og Sam Greene, sem þjálfuðu liðið, voru rekin eftir að þau voru sökuð um munnlegt ofbeldi og hefndarhegðun í garð ákveðinna leikmanna.

Sjá einnig:
„Þau komist ekki áfram upp með slíka framkomu"

Þetta var aðeins eitt af mörgum slíkum málum í Bandaríkjunum á undanförnum árum, en margir leikmenn í kvennaboltanum þar í landi hafa fengið að kynnast ógeðslegri hegðun frá þjálfurum og öðrum yfirmönnum. Gunnhildur lenti í leiðinlegu máli í Utah og fékk að kynnast erfiðu andrúmslofti í Orlando.

„Það var svaka í gangi í ár núna í Orlando. Við erum með fjóra þjálfara á þessum tveimur árum. Í janúar byrjuðu þau loksins að breyta öllu," sagði Gunnhildur í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net á dögunum.

„Það var endurnýjað of seint fyrir mig, ég vildi fara heim. Það var gaman að geta verið nær fjölskyldu minni og maka, en þetta snerist ótrúlega mikið um annað en fótbolta í langan tíma hjá Orlando. Það er gott að koma heim og geta einbeitt sér að því að hafa gaman að því að spila."

Gunnhildur segist hafa fundið mikið fyrir því sem var í gangi utan fótboltans hjá félaginu, þó mál þjálfarana hafi ekki snert hana persónulega.

„Ég íhugaði að hætta, ég neita því ekki. Manni leið ekki vel. Það var alltaf vesen og drama, og mér líður ekki vel með drama. Ég vildi bara mæta og spila fótbolta. Það var eins og það væri það síðasta á listanum hjá félaginu, fótboltinn. Þetta tók á og seinasta árið var örugglega erfiðasta árið mitt á ferlinum þó ég hafi slitið krossband þrisvar. Ég þekki sjálfa mig meira núna sem er mjög fínt."

„Ég lenti ekkert í þjálfaranum. Ég var bara þessi Íslendingur sem kom, spilaði fótbolta og fór. Ég var ekkert að skipta mér af því sem var í gangi og vildi það ekki á þessum tímapunkti. Þetta fór algjörlega út úr böndunum innan félagsins og þau tækluðu það mjög illa, en þau lærðu helling af því núna. Þau eru þvílíkt að bæta sig og eiga hrós skilið fyrir það. Þau eiga hrós skilið fyrir að bæta sínar vinnureglur."

Með því að smella hérna er hægt að lesa ítarlega skýrslu um misferli þjálfara og annarra starfsmanna í bandaríska boltanum á síðustu árum. Vonandi fer þetta að lagast.

„Þeir sem eru bannaðir núna fyrir lífstíð eiga það skilið. Þeirra hegðun á ekki heima neins staðar, ekki á neinum vinnustað. Það var gert rétt. Í Bandaríkjunum er verið að ræða meira núna. Þú getur núna hringt í númer og sagt ef það er eitthvað í gangi. Þá fer ákveðið ferli af stað... það eru komnar meiri vinnureglur og það hjálpar," segir Gunnhildur en hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan þar sem Gunnhildur ræðir líka um landsliðið og Stjörnuna. Hún hvetur fólk til að fylgjast með Stjörnunni í sumar.

Sjá einnig:
Gunnhildur Yrsa: Vonandi vinnur hann aldrei aftur í kvennaboltanum
Gunnhildi var ráðlagt að hætta - „Besta ákvörðun sem ég tók"
Brútal félagaskiptakerfi í Bandaríkjunum - „Finnst þetta ekki í lagi"
Gunnhildur Yrsa er mætt heim - Kom ekkert annað til greina
Athugasemdir
banner
banner
banner