Martinelli til Sádi? - Brentford neitar að lækka sig - Alonso tilbúinn að selja - Elanga á leið til Newcastle
   fös 04. júlí 2025 06:00
Daníel Rúnarsson
Álftanesvöllur fær nýtt nafn í samstarfi við Ormsson
Mynd: UMFÁ

Ungmennafélag Álftaness (UMFÁ) og Ormsson hafa gert með sér nýjan þriggja ára samstarfssamning. Samningurinn felur einkum í sér að Ormsson verður aðalstyrktaraðili yngri flokka knattspyrnudeildar UMFÁ á samningstímanum með það að markmiði að efla starf deildarinnar og þá sérstaklega starf yngri flokka félagsins.


Leikmenn yngri flokka Álftaness munu á næstu árum keppa í búningum merktum „Nintendo“ og „Super Mario“. Þá mun knattspyrnuvöllurinn á Álftanesi taka upp nýtt nafn og heita framvegis „HTH-völlurinn“ en Ormsson er umboðsaðili HTH innréttinga á Íslandi.

„Það er bæði gaman og gefandi að koma að áframhaldandi uppbyggingu yngri flokkanna á Álftanesi með þessum hætti og eiga þannig þátt í að efla íþrótta- og félagsstarf krakkanna í bæjarfélaginu,“ segir Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Ormsson.

„Ég þekki vel til starfs UMFÁ – dætur mínar hafa bæði æft og keppt með félaginu og mér er mjög umhugað um samfélagið okkar hér á Álftanesi. Það er mér mikilvægt að styðja við uppeldis- og forvarnarstarf sem styrkir grunninn að heilbrigðu og samheldnu bæjarfélagi,“ bætir Kjartan við.

 „Það er mikilvægt fyrir félag eins og okkar að hafa öfluga bakhjarla og góða samstarfsaðila. Það er okkur því mikið ánægjuefni að fá rótgróið og öflugt fyrirtæki eins og Ormsson til liðs við okkur,“ segir Ívar Ásgrímsson, framkvæmdastjóri UMFÁ.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kjartan Örn Sigurðsson og Ívar Ásgrímsson handsala samninginn.


Athugasemdir
banner