Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var ánægður með gott dagsverk í Víkinni er liðið vann Fylki 2-0 í 2. umferð Bestu deildarinnar en aðstæður voru langt í frá fullkomnar.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 Fylkir
Það var mikið rok á höfuðborgarsvæðinu og því erfitt að gera gott úr þessu. Víkingar skoruðu tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútunum og var Arnar ánægður með það.
Eftir það var bara farið í að sigla sigrinum heim sem Víkingur gerði nokkuð örugglega. Liðið er með tvo sigra úr fyrstu tveimur leikjunum.
„Já, mjög ánægður. Virkilega erfiður leikur og erfiðar aðstæður fyrir bæði lið en sem betur fer skoruðum við snemma og komumst í 2-0 snemma og eftir það snerist þetta um að loka leiknum. Aðstæður buðu ekki upp á neitt annað. Virkilega ánægður með framlag strákana í dag,“ sagði Arnar við Fótbolta.net, en hann var ekkert sérstaklega hrifinn af veðrinu.
„Hræðilegt, bara alveg hræðilegt. Maður hefur spilað nokkra svona leiki og þetta er bara ömurlegt og ömurlegt fyrir leikmenn, aðstandendur og stuðningsmenn að fá ekki alvöru leik. Svona er þetta á Íslandi á þessum árstíma og ég hef oft sagt það að til að vinna titil á Íslandi þarftu að keppa í alls konar aðstæðum og það munu allir lenda í þessu í sumar.“
Birnir Snær Ingason og Oliver Ekroth gerðu mörkin í dag en hann er ánægður með hvað Birnir hefur bætt sinn leik.
„Virkilega góð mörk. Biddi kom virkilega öflugur og sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Skoraði gott mark og vitum alveg hvaða hæfileika hann hefur þessi drengur. Oliver með sitt annað mark í tveim leikjum, sem er bónus. Tvö hrein lök en mest ánægður með að ég man ekki eftir neinu færi hjá Fylki. Ánægður með hvað við vorum þéttir og hvað það var mikill vilji og ástríða að halda hreinu.“
„Hann kemur með X-faktorinn. Ég líki honum oft við Jack Grealish Íslands. Hann er svona X-faktorinn og getur tekið menn á en það sem hann er búinn að bæta mikið við sinn leik er varnarlegi þátturinn og búið að taka tíma að komast inn í okkar leik og vera með fitness sem þarf á að halda til að spila á þessu leveli.“
Ekroth er með tvö mörk og eina stoðsendingu í fyrstu tveimur leikjunum.
„Hann var mjög góður í fyrra og gefur okkur svo mikið í uppspili. Frábær á bolta og brjóta línurnar með föstum og hvössum sendingum en hefði ekki getað órað fyrir að hann væri með tvö mörk og assist eftir fyrstu tvo leikina. Við erum hættulegir í föstum leikatriðum og með alls konar góðar útfærslur og Sölvi Geir búinn að standa sig vel í að koma með alls konar nýjungar í okkar leik,“ sagði Arnar ennfremur en hann ræðir margt annað í viðtalinu hér fyrir ofan. Hann fer yfir skiptingarnar, spila manni færri síðustu tíu mínúturnar, Danijel Dejan Djuric og Viktor Örlyg Andrason.
Athugasemdir