Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 16. júní 2022 09:00
Brynjar Ingi Erluson
„Þurfum að styðja við bakið á þeim ekki bara brjóta þá niður og drulla yfir þá"
Rúnar Alex Rúnarsson
Rúnar Alex Rúnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Kristinsson ræddi aðeins um son sinn og landsliðið
Rúnar Kristinsson ræddi aðeins um son sinn og landsliðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður íslenska landsliðsins, hefur rætt mikið um neikvæðu gagnrýnina sem landsliðið hefur fengið undanfarna mánuði en hann sagði á dögunum að liðið hafi aldrei verið samheldnara en nú.

Mikil neikvæðni hefur verið í fjölmiðlum síðustu mánuði og jafnvel ár. Skoðanir manna eru misjafnar á samfélagsmiðlum en þær fá mikið fylgi.

Með tilkomu hlaðvarpsins hafa menn fengið að viðra skoðanir sínar, hvort sem þær hafi átt rétt á sér eða ekki, það er annað mál, en neikvæðnin hefur verið bersýnileg.

Það hélt áfram í landsleikjaglugganum í júní og gekk það jafnvel svo langt að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, birti pistil á Facebook og kallaði eftir meiri jákvæðni.

Þar svaraði hún Kára Árnasyni og Rúrik Gíslasyni sem töluðu um að hugarfar landsliðsins væri of 'soft' og þá hafði Kári ekkert sérstaklega gaman af því að sjá menn brosa og hlæja á æfingum.

Rúnar Alex er einn af þeim mönnum sem hefur fengið hvað mesta gagnrýni í sinn garð en faðir hans, Rúnar Kristinsson, var spurður út í gagnrýnina eftir 3-3 jafntefli KR gegn ÍA í gær.

„Ég er alltaf mjög ánægður með Rúnar Alex, hann er frábær markvörður. Það er svolítið skrítið að í hvert einasta sinn sem Ísland fær á sig mark þá er alltaf verið að pikka í að hann hefði geta gert betur og allskonar sérfræðingar halda að þeir viti eitthvað um þetta," sagði Rúnar við Fótbolta.net.

„Því miður hefur hann fengið mikið á baukinn. Hann er að taka við af Hannesi sem fékk ofboðslega mikið hrós og stóð sig ofboðslega vel fyrir landsliðið. Menn eru bara ekki tilbúnir að sætta sig við nýja leikmenn þarna inn og eru mjög harðir að gagnrýna. Ég get ekki alltaf verið sammála þessum mönnnum."

„Ég er stoltur af honum og ofboðslega ánægður með hann. Hann er flottur markvörður og það er alveg eins með þetta íslenska lið, við verðum að styðja við bakið á þeim líka. Ekki bara brjóta þá niður og drulla yfir þá, við þurfum að gefa þessum strákum séns. Það er ekkert auðvelt fyrir þessa ungu drengi að fá endalausar skammir og fúkyrði yfir sig á Twitter og allskonar Podcöstum hér og þar um bæinn."

„Þetta eru stundum litlar sálir og hafa tilfinningar eins og hver annar. Það er stundum allt í lagi að hrósa mönnum líka þó við ætlumst til að sjá framfarir, gæði og að liðið sér að leggja sig fram. Ég held að það sé engin spurning að þeir eru að reyna en það hafa verið töluverðar breytingar á landsliðinu undanfarin tvö ár og það tekur sinn tíma,"
sagði Rúnar um son sinn og landsliðið.
Rúnar Kristins: Ég og enginn af mínum leikmönnum sætta sig við það
Athugasemdir
banner
banner