Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 17. febrúar 2020 09:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Áhorfendur velja bestu og verstu velli í Pepsi Max
1. Hlíðarendi trónir á toppnum.
1. Hlíðarendi trónir á toppnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
2. Heimavöllur hamingjunnar fær góða dóma.
2. Heimavöllur hamingjunnar fær góða dóma.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
3. Kaplakriki fær bronsið.
3. Kaplakriki fær bronsið.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
4. Kópavogsvöllur.
4. Kópavogsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
5. Meistaravellir.
5. Meistaravellir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
6. Fylkisvöllur.
6. Fylkisvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
7. Völlurinn á Akranesi er í sjöunda sæti.
7. Völlurinn á Akranesi er í sjöunda sæti.
Mynd: Ingunn Hallgrímsdóttir
8. Það getur verið kalt í Garðabænum.
8. Það getur verið kalt í Garðabænum.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
9. Frá Akureyri.
9. Frá Akureyri.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fótbolti.net setti saman gríðarlega öfluga dómnefnd sem valdi bestu og verstu velli Pepsi Max-deildar karla þegar kemur að aðstöðu áhorfenda.

Dómnefndin horfði á umgjörð, aðstöðu og leikdagsupplifun. Þegar allt var lagt saman var hægt að raða völlunum frá bestu leikdagsupplifuninni til þeirrar verstu.

Með hverjum velli má sjá ummæli frá dómnefndinni.

Dómnefnd: Arnar Daði Arnarsson, Baldvin Már Borgarsson, Benedikt Bóas Hinriksson, Daníel Geir Moritz, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Haraldur Árni Hróðmarsson, Hjalti Þór Hreinsson, Magnús Þór Jónsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Tómas Þór Þórðarson, Valur Gunnarsson, Þorsteinn Haukur Harðarson.

1. Origo völlurinn - Valur

- Í raun sjálfvalið. Góð aðkoma, Fjósið er frábært, stúkan er flott og svæðið “pro”.

- Flott stúka nálægt vellinum með bekkina nær stúkunni sem er skemmtilegt. Fjósið algjör bylting í umgjörð Pepsi Max.

- Stúkan snýr í suður svo að maður geti notið sólarinnar án þess að hafa hana í augunum og maður getur yfirleitt valið sér sæti án þess að mæta of snemma.

- Eftir að Fjósið var tekið í notkun þá er kominn einhver andi yfir svæðið á leikdag sem maður finnur hvergi annarsstaðar.

2. Heimavöllur hamingjunnar - Víkingur

- Í Víkinni er yfirleitt veðurblíða og frábærar aðstæður fyrir bæði áhorfendur og leikmenn.

-Sólin skín í stúkuna og frábærir borgarar á grillinu.

- Besta veðrið, góð stúka nálægt vellinum og mjöður fyrir alla af dælu.

- Það skapast alltaf þétt stemning í Fossvoginum. Stúkan og allt svæðið myndar hina fullkomnu Pepsi Max-stemningu.

3. Kaplakriki - FH

- Stuttar raðir í veitingar í hálfleik og mikið rými til að spjalla við menn og málefni fyrir leik og í hálfleik í skjóli. Fjör í vallarþulinum og tónlistin skemmtileg.

- Umgjörðin skemmtileg í Krikanum. Matartorgið frábært í góðu veðri.

- Kaplakriki kemst næst Hlíðarenda með pallinum. Það í raun þarf ekki mikið til að Hafnfirðingar eigi bestu umgjörðina.

4. Kópavogsvöllur - Breiðablik

- Don Simon gerði vel hjá Blikum að koma í kring betri umgjörð, bjórtjald, battavellir fyrir börnin, góðir borgarar og æðisleg kampavínsstúka.

- Besta stúkan upp á hæð, eilítið langt frá leikvellinum þó. Bestu borgararnir í deildinni án vafa, fullt af bílastæðum skammt undan.

- Þegar stúkan er troðin er bara opnað hinumegin og þar er stórkostleg aðstaða fyrir helgarpabba.

5. Meistaravellir - KR

- Þegar vel gengur er sungið og trallað. Skemmtileg umgjörð og upplifun góð.

- Frostaskjól er í niðurníðslu og er að drabbast niður. Klósettskúrinn setur liðið í botnsætið sem og heróínleiksvæðið fyrir börn.

6. Würth völlurinn - Fylkir

- Hefur tekið stakkaskiptum með nýju stúkunni. Mun skemmtilegra að mæta í lautina í dag en áður.

- Skemmtileg stemning í því að labba inn í gegnum bakhlið stúkunnar. Þurfa bara að fara úr dósabjór í krana!

7. Norðurálsvöllurinn - ÍA

- Kostir Norðurálsvallarins er að hann er svolítið gamaldags og minnir á þá tíma sem Skaginn virkilega gat eitthvað, þar er bæði boðið upp á stúku og brekku.

- Stúkan leiðinleg og síðast þegar ég fór var ekki einu sinni hægt að fá veitingar þeim megin. Langt að fara allt, til dæmis á salerni og svo í veitingarnar.

8. Samsung völlurinn - Stjarnan

- Dúllubar hefur gert mikið fyrir Garðabæinn, frábær viðbót. Vel skipulögð umgjörð, sem er mjög mikilvægt.

- Þó að úti sé sól og 25°c tekst samt að vera við frostmark í stúkunni og ekki eru hræðilega óþægilegu sætin að hjálpa til. Ég ætla svo varla að minnast á súlurnar sem skyggja á völlinn.

- Fá plús fyrir Dúllubar og flott grill en stúkan er bara of KÖLD!

9. Greifavöllurinn - KA

- Vonandi mun félagið fá þann skilning sem það á skilið frá bænum.

- Völlurinn talsvert langt frá félagssvæði KA og áhorfendur dreifast fullmikið.

- Barn síns tíma og furðulegasta staðsetning á stúku í Evrópu.

10. Vivaldivöllurinn - Grótta

- Aldrei farið út á nes og fundið fyrir logni. Stúkan ca kílómeter frá vellinum.

- Löng röð í salernisaðstöðu, pínulítil sjoppa og mjög langt labb af bílastæðunum.

- Þaklaus stúka á svæði þar sem í 90% tilvika er vindur, auk þess sem aðalvöllurinn er mjög illa afmarkaður með alla þessa æfingavelli á bakvið.

11. Extra völlurinn - Fjölnir

- Það er margt óheillandi. Erfitt að fá bílastæði, alltaf óljóst hvar þú átt að labba inn og þegar það rignir er mínus að hafa ekki yfirbyggða stúku.

- Að fá stæði? Hræðilegt. Göngulengdin frá miðasölu að stúku? Hræðileg. Stúkan? Varla hægt að kalla hana það. Stuðningur við heimalið? Heyrist varla.

- Eini kosturinn sennilega king Kárapallur og hann er splunkunýr.

- Fyrstu deildar völlur í efstu deild.

12. Kórinn - HK

- Slagorð Kórsins ætti að vera: "Kórinn, þar sem allir leikir eru eins og æfingaleikir".

- Fer ekki inn til að horfa á fótbolta á sumrin, alveg eins og ég fer ekki í golfhermi þegar það eru 20 gráður og sól úti.

- Tilfinningin að fara á leik í Íslandsmótinu innanhúss er bara ekki góð. Líður alltaf eins og ég sé kominn á eitthvað janúarmót þegar ég mæti á leik í Kórnum.

- Bergmálsbolti í efstu deild er bara óboðlegt. Sama hvað HK-ingar munu reyna verður þetta versta upplifunin þar til þeir fá útivöll. Ömurlegt.
KSÍ merkið umdeilda og bestu og verstu vellirnir
Athugasemdir
banner
banner