mið 19. febrúar 2020 10:00
Magnús Már Einarsson
Ótrúlegur bati Gomes eftir fótbrotið - Gæti spilað um helgina
Klár á nýjan leik.
Klár á nýjan leik.
Mynd: Getty Images
Portúgalski miðjumaðurinn Andre Gomes gæti snúið aftur í lið Everton þegar það mætir Arsenal á sunnudaginn, innan við fjórum mánuðum eftir að hann fótbrotnaði skelfilega í leik gegn Tottenham.

Hinn 26 ára gamli Gomes spilaði 60 mínútur í vináttuleik fyrir luktum dyrum um síðustu helgi og Carlo Ancelotti, stjóri Everton, hefur gefið í skyn að hann geti farið beint í byrjunarliðið um helgina.

„Hann stóð sig vel (í æfingaleiknum), hann spilaði án vandræða og hann er klár í að spila að mínu mati," sagði Ancelotti.

„Þegar leikmaður hefur verið frá keppni í langan tíma þá tel ég að það sé betra að byrja leikinn. Hann getur undirbúið sig almennilega frekar en að við setjum hann inn af bekknum. Ég þarf að ræða við hann og finna lausn."

Gylfi Þór Sigurðsson fær því aukna samkeppni um stöðu á miðjunni í 4-4-2 kerfi Everton á næstunni. Phil Kirkbride hjá Liverpool Echo ræddi um stöðu Gylfa hjá Everton í þættinum „Vellinum" hjá Símanum um síðustu helgi.

Athugasemdir
banner
banner
banner