Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 19. júlí 2024 15:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Þessi gluggi sá besti sem landsliðið hefur spilað í langan tíma"
Icelandair
Sætinu á EM fagnað.
Sætinu á EM fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, eftir leikinn gegn Þýskalandi.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, eftir leikinn gegn Þýskalandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stelpurnar okkar verða með á EM í Sviss á næsta ári.
Stelpurnar okkar verða með á EM í Sviss á næsta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
„Ég held að þessi gluggi hafi verið einhver sá besti sem landsliðið hefur spilað í langan tíma; úrslitalega, spilamennskan, skipulag, strúktúr og allt," sagði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, þegar rætt var um síðasta landsleikjaglugga hjá kvennalandsliðinu í hlaðvarpi hér á síðunni í gær.

Stelpurnar okkar tryggðu sig inn á EM með 3-0 sigri gegn sterku liði Þýskalands á heimavelli og fylgdu því svo eftir með góðum 0-1 sigri gegn Póllandi á útivelli.

„Mér fannst leikurinn gegn Þýskalandi sannfærandi. Hann var ógeðslega vel lagður upp. Þetta er stærsti sigur kvennalandsliðsins í ég veit ekki hvað langan tíma," sagði Óskar jafnframt.

„Þýskaland hefur oftast verið langbesta landsliðið í Evrópu. Spánverjar hafa náttúrulega tekið svolítið yfir en þýska landsliðið er ógnarsterkt og þetta segir ýmislegt," sagði Magnús Haukur Harðarson.

Íslenska liðið hefur verið í góðri þróun síðustu mánuði og þetta var stærsta dæmið um það.

„Sigurvegarar þessarar undankeppni er þjálfarateymi landsliðsins. Ef við spólum til baka til síðasta Evrópumóts þá voru alls konar gagnrýnisraddir varðandi uppspil, að halda bolta, sóknaruppspil og svoleiðis. Svo er þessi leikur gegn Þýskalandi í Þjóðadeildinni og það afhroð. En í seinustu gluggum hefur maður séð handbragð og meira öryggi inn á vellinum með boltann," sagði Magnús Haukur.

Sveindís Jane Jónsdóttir var frábær í síðasta glugga, skoraði tvö og lagði upp tvö.

„Ég fékk óvægina gagnrýni á miðlinum X eftir að hafa talað um að íslenska kvennalandsliðið væri kannski betra án Sveindísar... uppleggið fyrir hana í þessum leikjum sem við vorum að spila var ekki sérstaklega gott. Hún er ekki góð með bakið í markið og er ekki góð í að koma niður að sækja boltann. Hún er góð í að elta og fá boltann í gegn. Afgreiðslan á móti Pólverjum var svo... ef hún er farin að bæta þetta, þá er það frábært. Uppleggið varð miklu betra fyrir leikmenn eins og Sveindísi í þessum síðustu 2-3 gluggum. Það er það sem skiptir máli. Steini, Ási, Gunnhildur Yrsa og öll þau sem eru á bak við eiga hrós skilið. Maður sér virkilegar bætingar á strúktúrnum á liðinu," sagði Magnús.

Rætt var um það í þættinum að það væri allt annar bragur á liðinu núna en hefur verið. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Einn stærsti sigur í fótboltasögu Íslands og leiðin liggur til Sviss
Athugasemdir
banner