Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 21. janúar 2025 10:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Arnór Smára: Eðlilega er mikill áhugi á leikmönnum Vals
Bjarni Mark er eftirsóttur og hefur hafnað einu félagi.
Bjarni Mark er eftirsóttur og hefur hafnað einu félagi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað gerir Adam Páls?
Hvað gerir Adam Páls?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK vill fá Þorstein Aron aftur frá Val.
HK vill fá Þorstein Aron aftur frá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Heiðarsson á innan við ár eftir af samningi sínum við ÍBV.
Oliver Heiðarsson á innan við ár eftir af samningi sínum við ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór (til hægri) hefur verið hjá Val síðan í byrjun desember.
Arnór (til hægri) hefur verið hjá Val síðan í byrjun desember.
Mynd: Valur
Ennþá talsvert í að Lúkas Logi snúi aftur á völlinn.
Ennþá talsvert í að Lúkas Logi snúi aftur á völlinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Menn eru að taka vel á því og gera hlutina saman'
'Menn eru að taka vel á því og gera hlutina saman'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur verið fjallað um það að undanförnu að þrír leikmenn Vals væru mögulega að færa sig um set. Það eru þeir Bjarni Mark Duffield sem hefur verið orðaður við Fram og KA, Þorsteinn Aron Antonsson sem hefur verið orðaður við HK og Adam Ægir Pálsson sem er á láni frá Val hjá ítalska félaginu Perugia.

Fótbolti.net ræddi við Arnór Smárason, yfirmann fótboltamála hjá Val, og spurði hann út í leikmannamál félagsins.

Það á að vera samkeppni í Val
„Það er eðlilega mikill áhugi á leikmönnum Vals. En við erum bara ánægðir með þennan hóp sem við höfum akkúrat núna og ætlum ekkert að gera einhverjar róttækar breytingar á hópnum. Við erum búnir að fá Birki Heimisson aftur, Tómas Bent úr Eyjum sem er búinn að koma mjög flottur inn í þetta og svo fengum við hafsentinn Markus Nakkim. Þetta eru allt flottir leikmenn á góðum aldri sem munu styrkja hópinn. Við erum að fara inn í tímabil þar sem við viljum berjast á öllum vígstöðvum og þurfum góðan og breiðan hóp. Það er samkeppni í Val og það á að vera samkeppni í Val. Við erum því ekkert að stressa okkur mikið á því þó að það sé mikill áhugi á okkar leikmönnum," segir Arnór.

Vilja vinna með núverandi hóp
Það lítur þá ekki út fyrir það í dag að einhver sé að fara á næstunni?

„Eins og staðan er núna, þá nei, ekkert frekar. Ég er náttúrulega bara nýkominn inn í þetta en ég skynja mikla jákvæðni og gott hugarfar hjá hópnum. Menn eru að taka vel á því og gera hlutina saman. Við erum að endurheimta marga leikmenn mjög fljótlega úr ýmsum meiðslum, meiðslum sem menn tóku með sér úr síðasta tímabili. Það eru jákvæðar fréttir og það eru margir af þeim komnir út á völl að einhverju leyti."

„Við vildum styrkja okkur varnarlega, ná betra jafnvægi og finnst við hafa gert það með því að fá inn Birki, Tómas og Nakkim. Við viljum vinna eins vel og við getum með þennan hóp sem við erum með akkúrat núna. Mér finnst það vera á réttri leið og þetta lítur vel út eins og staðan er núna. Við byrjum árið á góðum æfingavikum og tveimur sigrum, einbeitingin verið meiri á æfingavikunum heldur en leikjunum sjálfum og því sterkt að vinna leikina líka. Það er margt jákvætt úr okkar herbúðum."


Bíða og sjá til með Adam
Adam hefur verið utan hóps hjá Perugia í síðustu þremur leikjum. Hann var orðaður við skipti til SPAL fyrr í janúar. Staðan hans lítur ekki út fyrir að vera frábær akkúrat í dag.

„Hann er úti á Ítalíu, eitthvað búið að ganga á bakvið tjöldin með honum og Perugia. Við þurfum bara að sjá hvað gerist í framhaldinu með það."

Lánssamningur Adams gildir út tímabilið og er Perugia með forkaupsrétt á honum. Hefur eitthvað samtal verið tekið um hvort hann spili með Val í sumar?

„Já, við erum í ágætis sambandi við Adam. Hann er einn af þessum leikmönnum sem mikill áhugi er á, eðlilega þar sem hann er frábær fótboltamaður. Við þurfum að sjá hvað gerist í þeim efnum, vonandi nær hann að leysa sín mál úti. Hugur hans var, og er, úti og hann vill leysa sín mál. Við sjáum bara hvað gerist í framhaldinu."

Verður Bjarni áfram hjá Val?
Það vekur athygli að Bjarni Mark spilaði allan leikinn gegn Fram um helgina. Það gerist í kjölfarið á fréttum af tilboðum frá öðrum félögum. Líður honum bara vel hjá Val?

„Bjarna líður vel í Val. Hann á mikið inni frá síðasta tímabili eins og margir. Hann er með gott hugarfar og góður drengur."

Eru Valsmenn eða Bjarni sjálfur búinn að hafna tilboðum?

„Það er mikill áhugi á honum. Það eru búin að koma nokkur tilboð og hann hafnaði einu félagi. Eins og staðan er núna þá höfum við átt gott og jákvætt samtal með Bjarna. Hann er einn af þeim sem eru í hollri samkeppni um stöður í liðinu."

Fótbolti.net setti sig í samband við Bjarna sjálfan. Hann vildi ekki tjá sig um áhuga annarra félaga að öðru leyti en að það væri heiður að margir hefðu áhuga á sér.

Er tilboð á borðinu núna í Bjarna, eða er ekkert í gangi eins og er?

„Það eru alls konar tilboð hér og þar í alls konar leikmenn hjá okkur."

Eru að endurheimta menn úr meiðslum
Arnór talaði um að Valsmenn væru að endurheimta leikmenn úr meiðslum. Hólmar Örn Eyjólfsson, Aron Jóhannsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Lúkas Logi Heimisson hafa verið að glíma við meiðsli.

„Aron er að byrja að koma inn á æfingar á fullu. Hólmar er búinn að vera úti á velli í hlaupaprógrami og aðeins í bolta, sama með Tryggva. Kristinn Freyr og Albin Skoglund voru ekki með um helgina, það voru smávægileg meiðsli. Það er svo aðeins í Lúkas Loga, við reiknum með honum í kringum æfingaferðina í mars. Það eru því heilt yfir jákvæð teikn á lofti með þá sem hafa verið frá. Menn eru að snúa til baka í þessari viku og svo þeirri næstu og hópurinn er að líta betur og betur út."

Ekkert í gangi akkúrat núna
Valsmenn voru mikið orðaðir við Oliver Heiðarsson í lok síðasta árs. Er það ennþá í fullum gangi?

„Nei, það var í gangi fyrir svolitlu síðan. Oliver er mjög spennandi leikmaður og klárlega einn af þeim sem við fylgjumst með."

„Við ætlum eitthvað að styrkja okkur fyrir mót en það er ekkert sem er í gangi akkúrat núna. Við erum að flýta okkur hægt í þeim efnum. Við erum bæði að skoða íslenska markaðinn og erlenda markaðinn, skoðum hvort að það komi upp einhverjir spennandi leikmenn sem myndu passa inn í hlutina hjá okkur."


„Finnst það vera á réttri leið"
Eruð þið með augastað á ákveðinni stöðu á vellinum?

„Við sögðum skýrt fyrir nokkru síðan að okkur langaði til að bæta jafnvægið varnarlega og erum á góðri leið með það."

„Annars líst mér bara rosalega vel á þennan hóp sem við erum með, gríðarlega mikil gæði í hópnum og aðaleinbeitingin er á því að vinna með þennan hóp sem við erum með, hvernig við getum gert hann betri. Mér finnst það vera á réttri leið."

Athugasemdir
banner
banner