Önnur umferðin í Bestu deild kvenna fer af stað í dag með tveimur leikjum. Svo eru þrír leikir á morgun.
Mist Rúnarsdóttir, hinn mikli sérfræðingur, spáir í aðra umferðina sem fer af stað í dag en það er spurning hvort hún geri betur en kollegi sinn, Ásta Eir Árnadóttir, sem var með tvo rétta í fyrstu umferð deildarinnar.
Mist Rúnarsdóttir, hinn mikli sérfræðingur, spáir í aðra umferðina sem fer af stað í dag en það er spurning hvort hún geri betur en kollegi sinn, Ásta Eir Árnadóttir, sem var með tvo rétta í fyrstu umferð deildarinnar.
FHL 0 - 3 Valur (16:00 í dag)
Litla stemmningin sem verður fyrir austan í dag! Fyrsti heimaleikur FHL í Bestu deildinni og þvílíkir gestir sem mæta í heimsókn. Þetta verður stór dagur og ég trúi ekki öðru en að íbúar Austurlands fjölmenni og fylki sér á bakvið liðið sitt. Það verður ærandi hávaði í höllinni en það truflar ekki Jordyn Rhodes sem er búin að finna markaskónna sína og setur tvö í 0-3 útisigri Vals. Þriðja markið kemur úr öftustu línu, líklega frá Natöshu, eftir eitraða hornspyrnu Önnu Rakelar.
Þór/KA 2 - 0 Tindastóll (16:00 í dag)
Alvöru grannaslagur og allskonar tengingar á milli liðanna hér. Heimakonur voru geggjaðar í fyrstu umferð og verða líklega aðeins of stór biti fyrir skipulagða Stólana. Margrét Árnadóttir var að raða inn mörkum í Lengjubikarnum og brýtur ísinn rétt fyrir hálfleik. SMJ byrjar svo að skora í Bestu Deildinni 2025 og setur eitt (jafnvel tvö) þegar líður á leikinn.
Stjarnan 1 - 2 Víkingur R. (18:00 á morgun)
Úff hvað þessum liðum langar til að gleyma fyrstu umferðinni. Það hefur verið einbeiting á æfingasvæðinu síðustu daga og það mun sjást á töluvert skarpari frammistöðum beggja liða. Tilfinningin hjá mér er Víkingsmegin og ég ætla að skjóta á 1-2 útisigur í nokkuð jöfnum fótboltaleik. Andrea Mist kemur Stjörnunni yfir en mörk frá Lindu Líf og Bergdísi Sveins tryggja Víkingum þrjú stig í pokann.
Fram 0 - 2 FH (18:00 á morgun)
Það eru fleiri sögulegir leikir í þessari umferð og Framkonur leika sinn fyrsta heimaleik í efstu deild síðan 1988. Spennan og eftirvæntingin er eðlilega gríðarleg en hægt er að róa taugarnar í Dalslaug, ýmist í heitu eða köldu eftir því hvað fólk kýs, fyrir leik. FH-ingar heilluðu margan eftir hugrakka frammistöðu á erfiðum útivelli í fyrstu umferð og ég held þær mæti Fram í sama gír. Elísa Lana og Thelma Karen setja sitthvort markið fyrir uppeldisfélagið og mörkunum munu fylgja þaulæfð skemmtileg og nýstárleg fögn.
Þróttur R. 1 - 2 Breiðablik (18:00 á morgun)
Það verður boðið upp á stórskemmtilegan leik í hjarta Reykjavíkur. Það voru skoruð 14 mörk í innbyrðisviðureignum liðanna í fyrra og hitt í fyrra svo við gefum okkur að lokatölur verði ekki 0-0. Blikarnir litu sjúklega vel út í fyrstu umferðinni og þær eru illviðráðanlegar með sinn hraða og sköpunarkraft fram á við. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með baráttunni á miðsvæðinu í þessum leik enda bæði lið ótrúlega vel mönnuð þar. Samantha Smith skorar snemma í leiknum en Þórdís Elva klínir boltanum upp í samskeytin snemma í seinni hálfleik. Karitas Tómasdóttir hefur tekið upp á því í seinni tíð að elska að skora á móti Þrótti og það verður því hún sem setur sigurmarkið á lokamínútunum.
Fyrri spámenn:
Ásta Eir (2 réttir)
Athugasemdir