Nágrannafélög berjast um Wharton - Osimhen gæti verið áfram á Ítalíu - Zidane til Juventus?
   lau 22. mars 2025 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Raphinha var næstum farinn frá Barcelona í fyrrasumar
Raphinha á rúm tvö ár eftir af samningi sínum við Barcelona.
Raphinha á rúm tvö ár eftir af samningi sínum við Barcelona.
Mynd: EPA
Brasilíski kantmaðurinn Raphinha er algjör lykilmaður í ógnarsterku liði Barcelona sem hefur verið að gera góða hluti undir stjórn Hansi Flick, sem tók við síðasta sumar.

Raphinha var að íhuga félagaskipti frá félaginu í fyrrasumar allt þar til Flick hafði samband við hann og sannfærði hann um að vera áfram.

„Ég íhugaði að fara frá Barca eftir Copa América," sagði brasilíski landsliðsmaðurinn við Globo Esporte. „Mér leið ekki nógu vel hjá félaginu þar til Flick hringdi í mig persónulega.

„Á hverjum degi var kominn nýr orðrómur um mig og hvert ég gæti farið. Ég átti ekki nægilega góða byrjun hjá félaginu og stuðningsmenn voru að biðja mig um að fara frá félaginu sínu. Ég íhugaði alvarlega að skipta um félag.

„Hansi Flick sagði mér að mæta á æfingu áður en ég tæki ákvörðun um að yfirgefa félagið. Hann vildi tala við mig og sagði að ég yrði mikilvægur partur af byrjunarliðinu undir hans stjórn. Það er þess vegna sem ég ákvað að vera áfram hérna."


Raphinha kom að 45 mörkum í 87 leikjum á fyrstu tímabilunum hjá Barcelona en hefur verið óstöðvandi undir stjórn Hansi Flick. Hann er kominn með 27 mörk og 20 stoðsendingar í 42 leikjum á yfirstandandi tímabili og er því að skila rúmlega tvöfalt fleiri mörkum og stoðsendingum heldur en hann gerði undir stjórn Xavi.

„Ég talaði við eiginkonuna og sagði henni að hingað væri kominn sanngjarn þjálfari sem kynni að meta vinnuframlagið mitt á æfingum. Ég vissi að hann myndi ekki sjá eftir því að setja traust sitt á mig og ég held að ég hafi haft rétt fyrir mér."

Barcelona borgaði um 60 milljónir evra til að kaupa Raphinha frá Leeds United sumarið 2022.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner